Spjót standa á fjölmiðlafrumvarpi

Útgefendur Fréttablaðsins og Morgunblaðsins vilja minnka umsvif RÚV. Þeir eru á meðal þeirra sem gagnrýna fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt ritstjóra Reykjavík Grapevine og framkvæmdastjóra Fótbolta.net. Þrátt fyrir þessa andstöðu fjölmiðla og frá nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks er Lilja  sannfærð um að frumvarpið verði samþykkt.

Vísir.is greinir frá því að Einar Þór Sverrisson, stjórnarformaður Torgs, útgefanda Fréttablaðsins, vilji að einum milljarði af þeim 4,7 milljörðum sem áætlaðir eru á fjárlögum til RÚV verði endurúthlutað til einkamiðlanna og gerð sparnaðarkrafa á RÚV á móti. Þeir vilja finna peningum sem þegar eru teknir af fólki í landinu fyrir fjölmiðlarekstur annan farveg, til einkamiðlanna, í stað þess að leggja frekari álögur á ríkissjóð.

Með þessu væri „stigið á bremsuna varðandi stjórnlausan vöxt RÚV án þess að leggja til að RÚV verði lagt niður,“ að sögn Einars Þórs. „Menn verða að gera sér grein fyrir því að staðan á þessum fjölmiðlamarkaði er sú að það er ekki sjálfsagt að hér sé haldið úti einkareknum miðlum,“ bætir hann við.

Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins, vill sömuleiðis minnka umsvif RÚV. Árvakur hefur sent inn umsögn í samráðsgátt vegna frumvarpsins. Í samtali við Vísi segir Sigurbjörn: „Við viljum takmarka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði við tiltekna fjárhæð. Þeir eru mjög fyrirferðarmiklir og gera einkareknum fjölmiðlum erfitt fyrir. Það mætti til dæmis loka Rás 2, hætta að skrifa á vefinn og mætti leyfa Ríkisútvarpinu að afla milljarðs í auglýsingar en ekki á þriðja milljarð.“

Sigurbjörn segir að Árvakur sé ekki hrifið af þaki á endurgreiðslum. Hann segist frekar vilja að endurgreiðslan sé bundin við prósentu. „Við viljum að það sé farin leið sem er farin á Norðurlöndum, í gegnum skattkerfið. Við nefnum sex atriði í lokin á umsögn okkar. Það er afnám eða endurgreiðsla virðisaukaskatts á áskriftum prentmiðla, tryggingargjald hjá starfsfólki fjölmiðla afnumið, umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði takmörkuð, áfengisauglýsingar leyfðar, rekstrarkostnaður endurgreiddur og skilyrði fyrir endurgreiðslu verði sem víðtækust.“

Fólk sem talar ekki íslensku hunsað

Valur Grettisson, ritstjóri Reykjavík Grapevine, segir í viðtali á Morgunvakt Rásar 2 í morgun að frumvarpið hunsi stóran hóp á Íslandi sem ekki tali íslensku. Hann segir það mjög mikilvægt að útlendingar geti nálgast íslenska þjóðmenningu á aðgengilegan hátt. Hann segir einnig að honum finnist sem styrkjafyrirkomulag geri fjölmiðla háða stjórnvöldum og skapi óheilbrigt ástand.

Reykjavík Grapevine á ekki möguleika á styrk því samkvæmt frumvarpinu renna styrkir aðeins til fjölmiðla á íslensku, með tilliti til málverndarsjónarmiða. Valur bendir þó á að í fjölmiðlalögum frá 2011 hafi verið sérstaklega tekið fram að fjölmiðlar á ensku væru ekki andstæðir málverndarsjónarmiðum. „Þetta frumvarp er í mótsögn við þetta því einungis fjölmiðlar á íslensku eru styrktir. Það þýðir að fjölmiðlar á borð við Iceland Review og Reykjavík Grapevine fá ekki styrki eins og fjölmiðlar á íslensku.\"

„Af einhverjum ástæðum hefur menningarmálaráðherra ákveðið að undanskilja þessa fjölmiðla á ensku frá þessu styrkjakerfi. Okkur finnst það ómálefnalegt, mismunun. Við heyrum undir fjölmiðlanefnd, við erum í blaðamannafélaginu; við uppfyllum öll skilyrði sem sett eru og eru mjög ströng í þessu fjölmiðlafrumvarpi. En við erum útilokuð út af tungumálinu og það er bara eitthvað sem beinist gegn innflytjendum og fólki sem sækir sér upplýsingar um Ísland á ensku. Okkur finnst þetta eðlilega svolítið ósanngjarnt því að útlendingar á Íslandi, innflytjendur, eru 12 prósent, þetta eru yfir fjörutíu þúsund einstaklingar.“

Samkeppnisstaða skekkist

„Við ger­um al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við að sam­keppn­is­staða fjöl­miðla verður gríðarlega skert verði lög­in sett sam­kvæmt loka­drög­um.“ Þetta kem­ur fram í um­sögn Hafliða Breiðfjörð, framkvæmda­stjóra Fót­bolta.net, um frumvarpið og Mbl.is greinir frá.

„Þetta er al­var­leg skekk­ing á sam­keppn­is­stöðunni,“ segir Hafliði í samtali við Mbl.is og bend­ir á að hans miðill sé í sam­keppni við íþrótt­asíður Mbl.is, Vísis.is, DV/​433.is og Frétta­blaðsins. 

Eitt skilyrða frumvarpsins er að um­fjöll­un­ar­efni miðils­ins skuli vera „fjöl­breytt og fyr­ir all­an al­menn­ing á Íslandi.“ Til þess að fjöl­miðill upp­fylli skil­yrðið þarf efni fjöl­miðils­ins að hafa „breiða skír­skot­un“ og efnis­tök þurfa að vera fjöl­breytt, „þannig að birt efni sé ekki nær ein­göngu bundið við ákveðið af­markað eða af­mörkuð svið, svo sem menn­ingu, trú­mál, íþrótt­ir, mat­reiðslu, lífstíl eða tísku.“ Hafliði segir að þetta úti­loki Fót­bolta.net frá fyr­ir­huguðum endurgreiðslum til fjöl­miðla, en miðillinn fjallar eingöngu um knattspyrnu.

Hann bæt­ir því við að sam­keppni Fót­bolta.net um starfs­fólk verði nán­ast von­laus, verði frum­varpið að lög­um. Þá mun miðillinn þurfa að leggja fram 33 prósent meiri pen­ing til að greiða starfs­manni sömu laun og sam­keppn­isaðilar, sem muni fá 25 prósent end­ur­greiðslu.

„Þetta gæti gert út um starf­semi fjöl­miðils sem hef­ur verið rek­inn í 17 ár og alltaf greitt alla reikn­inga og gjöld á rétt­um tíma,“ skrif­ar Hafliði í umsögn sinni. Hann hvetur ráðamenn til að gæta að því að vernda alla fjöl­miðla með setn­ingu lag­anna en ekki gera rekst­ur ákveðinna fjöl­miðla erfiðari.

Hafliði segir það hafa komið honum á óvart að sjá að frum­varpið nái ekki yfir miðla sem sér­hæfa sig í um­fjöll­un um til­tekið efni. Hann seg­ist þó heilt yfir hafa verið á móti hug­mynd­inni um að ríkið end­ur­greiði fjöl­miðlum hluta rit­stjórn­ar­kostnaðar. „Mér finnst að ríkið eigi ekk­ert að vasast í illa rekn­um fjöl­miðlum. Menn geta bara tekið ábyrgð á sín­um rekstri sjálf­ir. Ég þarf ekki að fá þessa pen­inga, en ég þarf að fá þá ef að sam­keppn­isaðilar mín­ir fá þá.“

Lilja sannfærð um að frumvarpið verði samþykkt

Kjarninn greinir frá því að Lilja Alfreðsdóttir hafi í viðtali í Silfrinu á RÚV sagst vera sannfærð um að frumvarpið verði samþykkt. Hún væri þeirrar skoðunar þrátt fyrir töluverða andstöðu frá fjölmiðlum sem að framan er greint og nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Í Silfrinu sagði Lilja að það yrði tekið til­lit til athuga­semda sem fram hefðu kom­ið. Hvað varðar veru RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði þá lagði hún áherslu á að um væri að ræða fyrsta skref í ferli. Það hafi þegar verið kynntar hug­myndir um að minnka umsvif RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði en að það verði ekki gripið til aðgerða fyrr en að mjög vel athug­uðu máli þannig að tekj­urnar sem myndi losna um myndu ekki ein­ungis renna beint út úr land­inu til erlendra samfélags­miðla sem hafa tekið sífellt stærri sneið af íslenskum aug­lýs­inga­mark­aði.