Spilaborg hentar ekki fyrir spítala

Þó Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri þeirra Mosfellinga, hafi getað dregið fram plögg sem duga til að kvitta upp á að í landi bæjarins verði byggður spítali, ekki minni en fyrirhugaður Landspítali, er örugglega of fljótt að fagna eða taka til varna.

Haraldur hefur áður, sem bæjarstjóri, gengið þennan sama veg. Þá urðu stórbrotnar hugmyndir að engu. Og þó. Þeirra vegna átti Haraldur og hans fólk allt klabbið í sínum skúffum. Spilaborgarmennirnir fréttu af þessu, hringdu í Harald á miðvikudegi og skrifuðu undir á fimmtudegi.

Haraldur gat ekki annað en tekið mönnunum vel. Hjá honum var allt klárt. Nokkurra ára brostnar vonir eignuðust líf, eða ekki líf. Það kemur í ljós hvort verður. Mosfellsbær kostar engu til. Ekki að þessu sinni.

Þegar Haraldur mætti til viðtals á Þjóðbraut Hringbrautar gætti hann að sér og hafði fyrirvara á þessu öllu saman. Sem er eðlilegt. Haraldur er reyndur maður og hefur, einsog hér hefur verið rifjað upp, gert þetta allt áður.

Þau okkar sem eru að fara á taugum vegna þessa alls, er best að segja, slakið á. Spilaborg rúmar ekki spítala. Hvorki í Mosfellsbæ né annars staðar.