Spennið beltin

Þetta var aldrei að fara öðruvísi. Leiðtogar hinnar róttæku verkalýðshreyfingar, hvar formaður Eflingar fer fremst í flokki, höfðu lítinn áhuga á að ná kjarasamningum. Tilgangurinn hefur fremur verið að sækjast eftir átökum og verkföllum með pólitísk markmið að leiðarljósi. Nú er það að raungerast. Vanstillt viðbrögð við útspili stjórnvalda hafa undirstrikað þá staðreynd. Tillögur um skattabreytingar, hækkun barnabóta og hækkun persónuafsláttar kosta ríkið um 18 milljarða. Ljóst er að ekki verður gengið lengra – og ríkið á alls ekki að ljá máls á því – nú þegar tekjur ríkissjóðs munu fara þverrandi samhliða niðursveiflu í efnahagslífinu.

Með lýðskrum að vopni, þar sem engu er skeytt um efnahagslegar staðreyndir og allir sem dirfast að vara við marxískum orðavaðlinum eru útmálaðir sem óvinir fólksins, hefur formönnum VR og Eflingar, ásamt ýmsum fylgitunglum sínum, tekist að tromma upp sífellt ískyggilegri stemningu í samfélaginu. Þau hafa markvisst spilað á tilfinningar fólks, einkum þeirra sem lægstu launin hafa, og vakið falsvonir um að hægt sé að ná fram stórfelldum launahækkunum og kjarabótum gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum með einu pennastriki.

Nánar á

https://www.frettabladid.is/skodun/spenni-beltin