Sparnaðarráð egils gillz: svona keypti hann tvær íbúðir og græðir – skrúfaði fyrir vitleysuna

Fjölmiðlamaðurinn Egill Einarsson, betur þekktur sem Gillz, hefur fjárfest í tveimur íbúðum á Ásbrú og leigir þær nú þegar út. Egill þurfti að breyta verulega um lífsstíl til að hafa efni á því að fjárfesta á Reykjanesi. Segir hann í samtali við Fréttablaðið að reglusemi sé lykillinn. Hann hafi áður farið mikið út á lífið en slíkt kosti mikla fjármuni. Egill segir:

 „Ég fer sjaldnar til útlanda og losaði mig við vöðvabílinn sem ég átti.“

Þá kveðst hann frekar njóta þess að eiga notalegt kvöld í Lazyboy-stólnum og lesa bók eftir vini sína í rithöfundasambandinu. Egill kveðst einnig hafa dregið úr neyslu orkudrykkja.

 „Svo hef ég það hugfast að flest af því besta sem lífið hefur upp á að bjóða kostar ekki neitt, til dæmis að vera til staðar, horfa á barnið sitt æfa og keppa í fótbolta og lyfta lóðum í vinnunni. Með því að skrúfa fyrir vitleysuna náði ég að leggja til hliðar og safna mér fyrir útborgunum í þessar íbúðir.“