Spá gengisfalli og verðbólgu

Fari svo að WOW air verði gjaldþrota og hverfi af markaði telja sérfræðingar á fjármálamarkaði að krónan muni veikjast. Verðbólga myndi þar með aukast. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að gjaldþrot WOW air hefði svo mikil áhrif á útflutningstekjur þjóðarbúsins að krónan myndi gefa eftir. „Til að koma á nýju jafnvægi í utanríkisviðskiptum þyrfti krónan að gefa töluvert eftir. Hversu mikið verður að koma í ljós,“ segir Gústaf. Hann telur ekki ólíklegt að gengi krónunnar fari upp í a.m.k. 150 krónur fyrir hverja evru, en gengið er nú um 136-137 krónur. Það yrði um 10 prósent veiking.

Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri Reykjavík Economics, tekur í sama streng í samtali við Morgunblaðið og telur ekki ólíklegt að gengi krónu muni veikjast um 5-10 prósent hverfi WOW air af markaði. Verðbólgan muni þá að óbreyttu fara í 5-6 prósent. „Þetta ræðst líka af því hvernig kjarasamningar fara. Ef laun hækka langt umfram innistæðu og hagnaður fyrirtækja dregst saman gætum við séð víxlverkun launa og verðlags, líkt og á 9. áratugnum,“ segir Magnús. Kaupmáttarstyrking síðustu ára myndi þá ganga til baka, þrátt fyrir launahækkanir, sem gerðist á 9. áratugnum.

Samkvæmt útreikningum Reykjavík Economics myndi 10 prósenta veiking leiða til þess að verðbólga ykist um 3,3 prósent, en verðbólgan er nú 3 prósent. Gangi þetta eftir myndi verðbólgan því að óbreyttu fara yfir 5 prósent í fyrsta sinn frá sumrinu 2012.

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, er einnig á sama máli og bendir á þátt ferðaþjónustunnar í styrkingu krónunnar. Með lækkandi þjónustutekjum verði horfur á veikari krónu og þ.a.l. minni kaupmætti. Ásgeir segir það ekkert nýtt, enda hljóti hagur þjóðarinnar að ráðast af gengi útflutningsatvinnuveganna.