Söngleikur um bubba í borgarleikhúsinu

Borgarleikhúsið mun frumsýna nýjan söngleik með lögum Bubba Morthens snemma árs 2020. Vinnuheiti söngleiksins er Níu líf – Sögur af landi. Þetta var tilkynnt á fréttamannafundi í Borgarleikhúsinu í dag. Ólafur Egill Egilsson skrifar verkið og mun tengja tónlist og texta Bubba við merka atburði í sögu þjóðarinnar síðustu áratugi.

Ólafur Egill segir um verkið: „Saga og sögur Bubba eru kannski um leið sögur okkar allra, sögur Íslands, frá verbúð til víðáttubrjálæðis, frá blindskerjum til regnbogastræta, hlýrabolum til axlapúða og aftur til baka.”

Á fréttamannafundinum flutti Bubbi brot úr nokkrum af sínum vinsælli lögum ásamt leikurum Borgarleikhússins, þeim Brynhildi Guðjónsdóttur, Jóhanni Sigurðarsyni, Birni Stefánssyni og Katrínu Halldóru Sigurðardóttur.

Á þessum tímapunkti hefur þó ekkert verið ákveðið varðandi leikstjóra, listræna stjórnendur eða leikara en greint er frá því að í verkinu munu ólíkir flytjendur túlka Bubba.

„Við munum kynna verkið í upphafi næsta leikárs ásamt öðru því sem verður sýnt á sviðum Borgarleikhússins á leikárinu. Starfsfólk Borgarleikhússins er fullt eftirvæntingar að takast á við þetta verkefni og takast á við nýjar áskoranir og færa leikhúsgestum sögurnar okkar, söngleikinn Níu líf – sögur af landi,“ segir enn fremur í tilkynningunni.