Sólveig Anna: Óþekka konan látin bíta í sápuna, henni til refsingar og öðrum til aðvörunar

Sólveig Anna: Óþekka konan látin bíta í sápuna, henni til refsingar og öðrum til aðvörunar

„Þórhildur Sunna segir sannleikann, það sem öll með heila hugsa, bendir rökföst á yfirgengilega spillingu, ekki til að „bæta ímynd“ (að „bæta ímynd“ er verkefni þeirra sem vita að innihaldið er rotið og þess vegna þarf að gæta þess að yfirborðið sé slétt og fellt) eða til að slá sig til riddara heldur vegna þess að hún er með siðferðiskennd og vegna þess að ef þú sækist eftir áhrifum og ert með siðferðiskennd þá ber þér einfaldlega skylda til að segja sannleikann.“

Þetta skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook-síðu sína. Tilefni skrifanna er niðurstaða siðanefndar Alþingis, sem telur að ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, um aksturskostnað Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, brjóti gegn siðareglum þingsins og séu til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.

Hún segir Þórhildi Sunnu refsað fyrir að segja sannleikann. „Fyrir þetta skal henni nú refsað, fyrir að geta ekki þagað þegar hún verður vitni að skammarlegu og siðlausu framferði. Refsigleði valdastéttarinnar gagnvart þeim sem dirfast að segja satt er aumkunarverð; þegar ekki er lengur hægt að treysta því að samtryggingin virki, þegar ekki er lengur hægt að treysta því að fégræðgin ráði för hjá fólki þegar kemur að möguleikum á því að komast í peninga er náð í sápuna og óþekka konan látin bíta í hana, henni til refsingar og öðrum til aðvörunar.“

„Svona aumkunarverð niðurstaða getur aðeins verið til marks um siðleysi þeirra sem að henni komast,“ segir Sólveig Anna að lokum.

Nýjast