Snjallúr ógna öryggi barna

Snjallúr ógna öryggi barna

ENOX Safe-Kid-One og Wonlex snjallúr
ENOX Safe-Kid-One og Wonlex snjallúr

Nýlega hafa tvær tegundir krakkasnjallúra verið bannaðar af Neytendastofu vegna öryggisgalla. Gagnvirkar og nettengdar vörur fyrir börn, t.d. snjallúr og leikföng, geta ógnað öryggi þeirra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Persónuvernd.

Persónuvernd vísar í fréttatilkynningu frá Neytendastofu frá 20. desember, þar sem kemur fram að stofan hafi bannað sölu og afhendingu krakkasnjallúranna ENOX Safe-Kid-One og jafnframt krafist innköllunar frá kaupendum. Úrin voru seld og markaðssett í netverslun Hópkaupa. Skoðun á úrinu leiddi í ljós alvarlega öryggisgalla. Gögn í úrinu voru ekki dulkóðuð og því auðvelt fyrir utanaðkomandi að brjótast inn í úrin og taka fulla stjórn á þeim, t.d. til að hlera úrið, eiga í samskiptum við barnið eða fylgjast með ferðum þess án vitneskju forráðamanna. Framleiðandi tryggði ekki með fullnægjandi hætti aðgangstakmarkanir að persónuupplýsingum notenda og ekki var að finna neina skilmála um hvar gögnin væru vistuð né hvernig mætti eyða þeim. Því úrskurðaði Neytendastofa að öryggisgallarnir fælu í sér alvarlega hættu og gætu ógnað öryggi barna.

Einnig er vísað í fréttatilkynningu Neytendastofu frá 4. janúar, þar sem tilkynnt er um að stofan hafi bannað sölu og afhendingu á Wonlex krakka snjallúrum sem verslunin Tölvutek hafði til sölu. Ástæðuna fyrir banninu megi meðal annars rekja til þess að úrin voru ekki CE-merkt (öryggismerking EES) og haldin alvarlegum öryggisgöllum. Hægt var að komast inn í úrin og fá aðgang að gögnum, breyta símanúmerum, hafa samskipti við barn gegnum snjallúrið og nálgast upplýsingar um staðsetningu barnsins. Því taldi Neytendastofa að öryggisgallar þessa snjallúrs fælu einnig í sér alvarlega hættu og gætu því ógnað öryggi barna.

Persónuvernd hefur áður greint frá nettengdum leikföngum sem brjóta gegn réttindum barna, m.a. böngsum sem láku persónuupplýsingum um 800.000 notendur.

Samtökin hvetja því foreldra og forráðamenn til þess að vera á varðbergi þegar kemur að kaupum á gagnvirkum og nettengdum vörum á við snjallúr og leikföng. Fólk þurfi að vera meðvitað um þær áhættur sem fylgi slíkum vörum.

Nýjast