Snjallmælar eru framtíðin

Bjarni Bjarnason ræddi við Lindu Blöndal í Súrefni á miðvikudagskvöld:

Snjallmælar eru framtíðin

Bjarni Bjarnason forstjóri OR
Bjarni Bjarnason forstjóri OR

„Í dag þá þekkjum við öll gömlu rafmagnsmælana, þeir snúast svona hægt og rólega og það er svona nánast hægt  að dáleiða fólk með því að horfa á þá. Síðan eru það hitaveitumælarnir, það er svona líka sem snýst. Þessir mælar eru allir á útleið og það er sem sé búið að ákveða að skipta út öllum rafmagnsmælunum og líka hitaveitumælunum fyrir svokallaða snjalla mæla, en það mun taka einhver ár,“ segir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Bjarni var í ítarlegu viðtali hjá Lindu Blöndal í Súrefni – þætti um umhverfismál á miðvikudagskvöld. Þar ræddi hann m.a. nýjung í álestrarmælum, snjallmæla.

„Snjallmælir er þannig að það eru upplýsingar sem er safnað og það er hægt að senda þær stöðugt eða á ákveðnum tímabilum, kannski einu sinni á klukkutíma, einu sinni á sólarhring, eftir því hvað við veljum. Þannig að það er mælirinn sjálfur og síðan er það samskiptabúnaður og síðan er úrvinnsla. Þetta eru upplýsingar um notkun og spennu, sveiflur í spennu þannig að við sjáum þá hver gæði rafmagnsins eru þegar það kemur í hús. Við sjáum það ekki í dag. Við sjáum bara, eins og ef við horfum á sendibíl, vöruna þegar hún fer í sendibílinn en ekki þegar hún kemur inn á heimilið. Þannig að þetta veitir okkur miklu meiri upplýsingar um ástand kerfisins og vöruna, ef við köllum rafmagn vöru, sem við erum að afhenda,“ segir Bjarni.

Hann segir ýmsa möguleika fólgna í því þegar snjallmælar eru komnir í öll hús. „Þá er hægt að fara t.d. að sveifla verði, koma á miklu virkari samkeppnismarkaði í rafmagni. T.d. væri hægt að stýra verði innan sólarhringsins. Þannig að viðskiptavinur Orku náttúrunnar, ef við tökum það sem dæmi, að þeim sé boðið 20 prósent lægra verð á nóttunni til að hlaða rafbílanna, t.d. frá tólf að kvöldi til sex að morgni. Mælirinn sér um það að mæla notkunina,“ segir Bjarni.

Viðtalið við Bjarna í heild sinni er að finna hér:

Nýjast