Slysahætta við yfirgefna bústaði – nágrannar kvartað í nær tvö ár en ekkert verið aðhafst

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hefur sent kröfu til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna umgengni í og við tólf gamla sumarbústaði við Elliðavatn. Bústaðirnir eru allir í mikilli niðurníðslu og vill heilbrigðiseftirlitið að lóðirnar verði hreinsaðar. Fréttablaðið greinir frá.

Í bréfinu frá heilbrigðiseftirlitinu segir meðal annars: „Á svæðinu er nokkur fjöldi gamalla kofa eða smáhýsa sem á árum áður voru nýttir sem sumarbústaðir en hafa flestir staðið tómir og yfirgefnir um árabil. Skemmdarvargar hafa farið um svæðið og rústað bústöðum, brotið allar rúður, hurðir, skemmt veggi og palla og eyðilagt innréttingar og innbú.“

„Ásýnd svæðisins er til verulegra lýta. Svæðið er ógirt. Slysahætta getur stafað af svæðinu fyrir börn, fullorðna og gæludýr þegar fólk á þarna leið um. Vaxandi fokhætta er frá svæðinu og viðbúið að skemmdarvargarnir kveiki í kofunum líkt og gerst hefur ítrekað austan Elliðavatns.“

\"\"

Þá segir að bifreiðar sem lagt hafi verið á svæðinu hafi einnig fengið að kenna á skemmdarvörgum og að spýtnabrak, brotnar rúður og ýmis konar rusl og jafnvel spilliefni sé dreift um lóðirnar

Lýsingar á hverri lóð fyrir sig eru allar á svipaða leið:

„Vatnsendablettur 43. Hús illa farið, búið að brjóta allt sem hægt er. Stendur opið. Hreinsa þarf allt lauslegt af lóðinni. Æskilegt að rífa húsið. Bílhræ þarf að fjarlægja.“

„Vatnsendablettur 170. Hús er að hrynja og er hættulegt, búið er að brjóta allt sem hægt er. Stendur opið. Hreinsa þarf allt lauslegt af lóðinni. Æskilegt að rífa húsið.“

Kvartanir engu skilað

Íbúar á svæðinu hafi kvartað í næstum tvö ár yfir umgengninni en ekkert hefur breyst. Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, segir í samtali við Fréttablaðið að það sé vegna flókinnar stöðu varðandi dánarbú látins eiganda lóðanna, Þorsteins Hjaltested.

„Bréfið er nú til skoðunar hjá sýslumanni, en þar sem það eru mjög takmarkaðar heimildir sem sýslumaður hefur til athafna fyrir hönd dánarbús er þetta erindi til nánari umfjöllunar og hafa þeir því fengið frest til að svara fyrirspurn okkar,“ segir Hörður.

Kópavogsbær hefur boðist til þess að hreinsa lóðirnar á sinn kostnað, en bent er á það í bréfi heilbrigðiseftirlitsins að þörf sé á formlegu samþykki lóðarhafa til að hefja hreinsunarstarf: „Heilbrigðiseftirlitið skorar á forsvarsmann dánarbúsins að nýta sér þessa þjónustu Kópavogsbæjar. Að öðrum kosti mun heilbrigðiseftirlitið láta hreinsa lóðirnar á kostnað lóðarhafa.“

Allir bústaðirnir í rúst og draslið út um allt

Í apríl síðastliðnum greindi Hringbraut frá ástandinu við Elliðavatn. „Það er svo slæmt ástand við Elliðavatn, allir gömlu bústaðirnir í rúst og draslið út um allt. Er búin að hafa samband við Kópavogsbæ og heilbrigðiseftirlitið en það er algjör uppgjöf og aðgerðarleysi í gangi,“ sagði Valdís Anna Garðarsdóttir, íbúi á svæðinu, í samtali við Hringbraut.

\"\"

Í nóvember 2018 skrifuðu nokkrir íbúar í nágrenni svæðisins bréf til Kópavogsbæjar þar sem þeir kvörtuðu undan hræðilegu ástandi á svæðinu. Á þeim tíma sagði Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar að lagt yrði áherslu á málið og það leyst eins fljótt og auðið er.

Eins og áður segir er erindið nú til skoðunar hjá sýslumanni.