Illugi ætlaði að skakka leikinn á laugavegi en atburðarásin tók aðra stefnu - „æ, knúsaðu mig nú aðeins kallinn minn!“

„Á Laugaveginum rétt áðan: Tveir úfnir miðaldra útigangsmenn, sem fyrrum hefði maður kallað róna, stóðu á horninu við Klapparstíg og hnakkrifust. Ég heyrði ekki um hvað þvargið snerist en illskeyttur rómur og líkamsstaða þeirra beggja sögðu mér að slagsmál væru í þann veginn að brjótast út.“

Þannig hefst færsla eftir Illuga Jökulsson rithöfund á Facebook, en hann taldi að slagsmál væru að brjótast út. Þar greinir Illugi frá því að hann hafi verið í þá mund að skakka leikinn þegar atburðarásin tók allt aðra stefnu. Illugi segir:

„Ég steig eitt skref í áttina til þeirra til að vera tilbúinn að skilja þá að þegar fyrstu höggin féllu, en þá skiptir annar þeirra alveg um tón, breiðir út faðminn og hrópar:

„Æ, knúsaðu mig nú aðeins kallinn minn!““

Þá bætir Illugi við að lokum:

„Hinn lét ekki segja sér það tvisvar og þeir voru enn að knúsast þegar ég sá þá síðast.“