Sláttur á útgerðarmönnum

Sumarið hefur verið tíðindasamt í viðskiptalífinu. Mest hefur borið á (vonandi mjúkri) lendingu ferðaþjónustunnar. Tap WOW og slök frammistaða Icelandair hafa vakið mikla athylgli, enda alvarlegt mál að hrikti í þessum stoðum efnahagslífsins. 

 

Það sem hinsvegar vekur umhugsun er hinn mikli sláttur sem nú er á útgerðarmönnum. Skemmst er að minnast þess er strákur af Snæfellsnesi keypti upp svo til alla stórútgerð Suð-Vesturhornsins í stórviðskiptum sem námu á þriðja tug milljarða. Nú hafa Norðanmenn í Samherja keypt fjórðungshlut í sjálfu Óskabarni þjóðarinnar fyrir 11 milljarða. 

 

Segja má, miðað við þessi stórinnkaup útgerðarmanna að eins gott sé að ríkisstjórnin ætli að lækka veiðigjöldin á vesalings fyrirtækin á komandi þingi. Einhvern veginn verða útgerðirnar að borga fyrir þetta allt saman.