Slátrar íslenskri þjóð: verðum leiðinlegri með hverjum deginum – móðguð, hneyksluð og engin lífsgleði

„Menn eru sífellt að móðga einhvern sem fer beina leið á netmiðlana og ásakar viðkomandi fyrir rasisma, kvenfyrirlitningu, hommahatur eða afneitun á umhverfisvandanum. Netið hefnir sín síðan grimmilega á hverjum þeim sem ekki fylgir óskráðum leikreglum þess.“

Þetta segir Óttar Guðmundsson geðlæknir í pistli sem birtur er á Vísi. Hann segir að í nútímasamfélagi sé pólitískt rétt að vera stöðugt móðgaður fyrir hönd ofsóttra minni og meirihlutahópa.

„Margir hoppa á vagninn og slást í för með hinum móðguðu á sama hátt og allur almenningur fyrri alda tók þátt í kirkjulegri skoðanakúgun. [...] Kommentakerfið er drullupollur skítkasts og illmælgi. Þetta þrengir tjáningarfrelsið enda er einungis ein skoðun leyfileg. Fullkomið húmorleysi er einkenni hinnar pólitískt rétthugsandi þjóðar.“ Þá segir Óttar að lokum:

„Íslenska þjóðin siglir inn í veruleika þar sem skoðanalögregla Internetsins er búin að svipta stóran hluta hennar lífsgleði og kímnigáfu. Í staðinn er komin hneykslaða og móðgaða þjóðin sem verður leiðinlegri með hverjum deginum sem líður.“