Íslandspóstur niðurgreiðir sendingar frá netverslunum í kína

Fyrst af öllu: hjá Póst- og fjarskiptastofnun er ekki svarað í símann eftir kl. 14. Því reyndist í þetta sinn ekki unnt að ná tali af fulltrúum stofnunarinnar.

Þá fréttin: eins og fram hefur komið á Íslandspóstur í rekstrarörðugleikum, og ætti engum að koma á óvart. „Bréfberarnir fara meiri vegalengd með færri bréf. Einingarkostnaðurinn hækkar og þetta er vandi póstdreifingar í hnotskurn, ekki bara á Íslandi heldur í öllum hinum vestræna heimi,“ sagði Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, í viðtali við RÚV á mánudag. Enginn kaupir lengur frímerki. Íslandspóstur ber þá skyldu, samkvæmt lögum, að annast bréfsendingar til allra viðtakenda á Íslandi. Þetta heitir alþjónusta og hún svarar ekki kostnaði, enda ekki til þess hugsuð. Samkeppnisaðilar Íslandspósts bera ekki þessa skyldu, sinna bara arðbærari hlutum sviðsins og geta því að jafnaði boðið betur í akkúrat þá starfsemi. Nánar til tekið: bögglasendingar, ekki síst frá netverslunum.

Víkur þá sögunni til Kína, gegnum Sviss.

Alþjóða póstmálaundrið

Vandræði póstsins eru, eins og forstjórinn nefnir, ekki séríslensk þróun. Eins og saga internetsins er saga póstsendinga alþjóðleg. Árið 1874 komu fulltrúar 22 ríkja saman í svissnesku borginni Bern og undirrituð þar yfirlýsingu, Bern-yfirlýsinguna svonefndu, um stofnun Alþjóða póstmálastofnunarinnar, Universal Postal Union eða UPU. Áður höfðu ríkin samið um póstsendingar sín á milli með tvíhliða samningum hvert við annað. Stofnunin leysti þá samninga af hólmi og minnkaði flækjustig sendinga verulega, með samkomulagi sem grundvallaðist á nokkurs konar jafnaðarhugsjón póstsendinga. Frá upphafi voru viðmið stofnunarinnar þrjú: að eitt póstburðargjald ætti að duga bréfi alla leið á áfangastað, hvaðan sem það væri sent innan aðildarríkjanna; að póstþjónusta í hverju landi ætti að veita erlendum póstsendingum sama forgang og póstsendingum innanlands; og að hvert land skyldi halda eftir þeim póstburðargjöldum sem það innheimti fyrir sendingar milli landa.

Þar með varð óþarft, til dæmis, fyrir hvern sem sendi böggul frá Kaupmannahöfn til Parísar, að kaupa frönsk frímerki til viðbótar við þau dönsku: dönsk frímerki skyldu duga alla leið. Og frönsk frímerki, sömuleiðis, á sendingar frá Lyon eða Bordeaux til Kaupmannahafnar og Árósa. Sama um öll önnur aðildarríki og allar byggðir þeirra.