Hart á milli samfó og #daddytoo

Samfylkingin, sendir frá sér yfirlýsingu vegna ásakana sem birst hafa í fjölmiðlum í garð varaformanns flokksins, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa.

Í yfirlýsingunni segir:

„Heiðu Björgu barst bréf frá RL lögmönnum fyrir helgi er innihélt ásakanir í garð hennar um hegningarlagabrot, nánar tiltekið að hún hefði með orðum sínum í útvarpsþættinum Harmageddon, þann 23. mars sl., meitt æru fjögurra nafngreindra manna er komið hafa fram fyrir hönd hóps er kallar sig #daddytoo. Í bréfinu eru meint ummæli Heiðu Bjargar ekki tilgreind með nákvæmum hætti og því óljóst hvað hún á að hafa gerst sek um. Hins vegar hafa einstaklingar er segjast koma fram fyrir hönd daddytoo hópsins ítrekað á undanförnum tveimur mánuðum sakað Heiðu Björgu opinberlega um að hafa sagt nafngreinda einstaklinga innan hópsins hafa beitt barnsmæður sínar ofbeldi. Allar þær ásakanir eru úr lausu lofti gripnar“.

Heiða Björg var ein af upphafskonum metoo byltingarinnar hér á landi og áberandi talsmaður hennar. Hún var einnig í forystu hóps stjórnmálakvenna sem lýsti kerfisbundnu ofbeldi og mismunun gegn konum í stjórnmálum.

Undir yfirlýsinguna skrifa Logi Einarsson, formaður, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, ritari , Hákon Óli Guðmundsson, gjaldkeri og Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður.