Skýrsla um vopnaflutninga samþykkt

Alþingi hefur samþykkt að utanríkisráðherra verði að flytja skýrslu um framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga varðandi vopnaflutninga.

Fyrsti flutningsmaður málsins á þingi var Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Meðflutningsmenn komu úr röðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Miðflokksins, Flokki fólksins og Pírata.

Beiðnin var samþykkt með 38 atkvæðum gegn þremur. Óli Björn Kárason, Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn því að skýrslubeiðnin yrði heimiluð.

Samgöngustofa hefur á tíu árum veitt 167 leyfi til vopnaflutninga. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn því að utanríkisráðherra yrði gert að taka saman skýrsluna og  aðrir samflokksmenn sátu hjá.

Beiðnin kom fram eftir umfjöllun í fréttaskýringaþættinum Kveiks á RÚV 27. febrúar síðastliðinn og fundar utanríkismálanefndar sem haldinn var eftir þáttinn.