Skúli og oz fengu rúmlega hálfan milljarð afskrifaðan

Skúli Mogensen, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri og eigandi WOW air, fékk afskrifaðar skuldir upp á samtals 469 milljónir króna hjá Landsbanka Íslands á árunum 2003 og 2004. Þá námu afskriftir OZ, hugbúnaðarfyrirtækisins sem var þá í eigu Skúla, á sama tímabili 45 milljónum króna. Alls afskrifaði bankinn því 514 milljónir króna, rúmlega hálfan milljarð.

Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar og byggir á gögnum um allar afskriftir í Landsbanka Íslands á árunum 2003 til 2008, sem blaðið hefur undir höndum.

Afskriftir persónulegra skulda Skúla voru vegna fjárfestinga í OZ og áttu sér stað í skrefum. Landsbankinn byrjaði á að afskrifa 395 milljónir króna af skuldum Skúla árið 2003 og ári síðar voru eftirstöðvar skulda hans, 74 milljónir króna, afskrifaðar. Á sama tíma afskrifaði bankinn 45 milljónir króna skuld OZ, sem sneri að lánum sem fyrirtækið fékk eftir að Landsbanki Íslands hafði yfirtekið það.

Fram kemur í umfjöllun Stundarinnar að Skúli hafi stofnað WOW air með fjármunum sem hann meðal annars eignaðist við sölu á OZ, sem hann keypti einmitt af Landsbankanum eftir að bankinn hafði tekið fyrirtækið yfir, afskrifað skuldir þess og einnig skuldir Skúla persónulega. Saga WOW og OZ er því samofin.