Skulda 500 kröfuhöfum samtals 17 milljarða

Samkvæmt lista yfir kröfuhafa skuldar þrotabú Primera Air alls um sautján milljarða íslenskra króna. Kröfuhafar eru um 500 talsins. Eignir eru hins vegar litlar. Upphæðir og fjöldi kröfuhafa gætu þó enn breyst. Þetta kemur fram í frétt danska dagblaðsins Jydske Vestkysten.
 

Í frétt Jydske Vestkysten segir að meðal stærstu kröfuhafanna í þrotabú Primera Air séu flugvélaleigan Aviation Capital Group, með kröfu upp á 519 milljónir; skatta- og tollayfirvöld í Bretlandi, með kröfu upp á 250 milljónir; og Evrópska flugumferðarstjórnin, Eurocontrol Brussels, með kröfu upp á 240 milljónir. Auk þess megi finna á listanum dönsk fyrirtæki eins og Dan Taxi, tryggingafélagið Gjensidige Forsikring, Rauða krossinn í Danmörku og fyrirtækjaskrá í Danmörku.

Samkvæmt Jydske Vestkysten á Primera Air útistandandi skuldir upp á um 550 milljónir. Þá átti flugfélagið við gjaldþrotið fjármuni upp á um 160 milljónir, þar af eru um 95 milljónir í reiðufé og aðrar eignir upp á um 28 milljónir.