Skrifa ekki undir skýrslu

Skrifa ekki undir skýrslu

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ
Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ

Öryrkjabandalag Íslands og Alþýðusamband Íslands hafa ákveðið að skrifa ekki undir skýrslu starfshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. ÖBÍ krefst skilyrðislauss afnáms krónu-á-móti-krónu skerðingu án tafar og segir lausa enda í skýrslunni of marga, og ASÍ bendir á að krafa hópsins um starfsgetumat gangi ekki upp.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu ÖBÍ.

Í tilkynningunni segir að afnám krónu-á-móti-krónu skerðingar sé ein af þeim úrbótum sem hægt væri að framkvæma strax ef vilji væri fyrir hendi. Þetta væri hægt að gera án þess að farið verði í kerfisbreytingar eða að heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum ljúki. ÖBÍ segir afstöðu sína hafa lengi verið ljósa, enda henni verið haldið fram gagnvart stjórnvöldum og almenningi um margra ára skeið. Bandalagið segir að afnámi skerðingarinnar ætti að vera löngu lokið.

ÖBÍ gagnrýnir að þessi skerðing verð ekki afnumin nema bandalagið fallist á að taka upp svokallað starfsgetumat og samþykki nýtt framfærslukerfi almannatrygginga. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í ræðu á Alþingi í gær að ÖBÍ leggist gegn krónu-á-móti-krónu skerðingunni. Því hafnar ÖBÍ alfarið, segir málflutninginn rangan og villandi og segir það brýnt að afnema skerðinguna án tillits til annarra breytinga, þar sem hún haldi þúsundum fjölskyldna í fátæktargildru.

Í tilkynningunni er vikið sérstaklega að samráðshópnum sem stjórnvöld settu á fót um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Formaður ÖBÍ hefur tekið virkan þátt í starfi hópsins og eftir að lokadrög að skýrslunni komu fram ákvað bandalagið að skrifa ekki undir skýrsluna. „Það er gert af þeirri ástæðu að lausir endar í því starfi eru einfaldlega of margir. Mannsæmandi afkoma er ekki tryggð. Krónu-á-móti-krónu skerðing verður ekki afnumin skilyrðislaust. Ekki er tekið á samspili lífeyriskerfisins og almannatrygginga, vinnumarkaðsmálin óklár, og svona má áfram telja,“ segir í tilkynningunni.

Alþýðusamband Íslands tekur undir sjónarmið ÖBÍ og skrifar heldur ekki undir skýrslu starfshópsins. Þetta upplýsti forseti ASÍ á málþingi sem kjarahópur ÖBÍ stóð fyrir í gær: Eru öryrkjar fólkið með breiðu bökin? Þar benti hún á að hvorki opinber né almennur vinnumarkaður býður upp á störf með lágu starfshlutfalli, sem sé í reynd algjör forsenda þess að hugmyndir um starfsgetumat geti gengið upp.

Nýjast