Skora á hagfræðistofnun að draga skýrslu til baka

Stjórn Landverndar hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem skorað er á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að draga skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða til baka. Í tilkynningunni er málflutningnum sem kemur fram í skýrslunni mótmælt harðlega.

Í tilkynningunni eru þrír hluti sérstaklega nefndir. Í fyrsta lagi er nefnt að að þær forsendur sem skýrsluhöfundur gefi sér í útreikningum sínum sé  af vistfræðilegum toga og þar með langt fyrir utan hans fagsvið. Margir vistfræðingar telji þessar forsendur úreltar.

Í öðru lagi sé fráleitt að spyrða saman náttúruverndarsamtök og hryðjuverk almennt og ekki síst í faglegri skýrslu sem fjalli um hvalveiðar, hvað þá að hvetja til lagasetningar um hryðjuverk í samhengi við baráttu fyrir verndun umhverfisins. Raunveruleg hryðjuverk beinist að því að drepa almenna borgara í þágu tiltekins málstaðar. Barátta náttúruverndarsamtaka sé friðsamleg.

Í þriðja lagi sé sú ógn sem steðji að umhverfinu vegna rányrkju manna raunveruleg og þessi ógn kristallist í baráttu náttúruverndarsamtaka fyrir verndun hvala.

Meginniðurstöður skýrslunnar voru á þá leið að hvalveiðar væru hagkvæmar fyrir Ísland. „Þegar allt er skoðað virðast hvalveiðar vera hluti af hagkvæmri nýtingu náttúruauðlinda landsmanna. Rök hníga til þess að hagkvæmt sé fyrir þjóðarhag að haldið verði áfram að veiða hvali,“ segir í skýrslunni.