Skora á Brúnei að afturkalla lög um dauðarefsingar vegna samkynhneigðar

Skora á Brúnei að afturkalla lög um dauðarefsingar vegna samkynhneigðar

Bandar Seri Begawan, höfuðborg Brúnei
Bandar Seri Begawan, höfuðborg Brúnei

Íslensk stjórnvöld í samstarfi við 35 ríki, sem öll eiga aðild að Equal Rights Coalition, bandalagi ríkja um réttindi hinsegin fólks (LGBT+), lýsa yfir mikilli andúð á ákvörðun stjórnvalda Brúnei að hrinda í framkvæmd lögum sem m.a. kveða á um að grýta megi samkynhneigða til bana.

Í sameiginlegri yfirlýsingu hvetja ríkin 36 stjórnvöld í Brúnei til að afturkalla breytingarnar og tryggja að öll refsilöggjöf í landinu sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Brúnei á sviði mannréttinda. 

„Það er dapurlegt að enn þann dag í dag skuli hinsegin fólk sæta slíkum ofsóknum af hálfu stjórnvalda að lífi þess sé ógnað. Réttindi hinsegin fólks eru grundvallarþáttur í mannréttindastefnu Íslands og við leggjum mikla áherslu á þau í störfum okkar í mannréttindaráðinu. Þessi réttindi eru aldrei afstæð heldur gilda þau alltaf, alls staðar. Þess vegna hvorki getum við né megum láta þessar ákvörðun stjórnvalda í Brúnei átölulausa,“ segir í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins.

Ákvörðun stjórnvalda í Brúnei að hrinda í framkvæmd afar strangri útgáfu af svonefndum sjaría-lögum hefur verið fordæmd víða um heim frá því að tilkynnt var um hana um síðustu mánaðamót. 

Ísland gerðist aðili að Equal Rights Coalition á síðasta ári en bandalagið var sett á laggirnar árið 2014 og eiga aðildarríkin það sameiginlegt að vilja standa vörð um og tryggja aukin réttindi LGBT+ einstaklinga í heiminum. Meira en fjörutíu ríki í Evrópu, Suður- og Norður-Ameríku og í Afríku hafa gerst aðilar að bandalaginu. 

Í texta yfirlýsingar Equal Rights Coalition segir m.a. að allt fólk eigi rétt á að njóta mannréttinda, óháð þáttum eins og kynhneigð. 

Nýjast