Skömm og erfiðleikar fylgja – unnur: „hættiði að segjast vera með adhd því þið gleymið lyklunum ykkar“

Unnur Edda Björnsdóttir leiklistarkennari í Grunnskólanum á Þorlákshöfn á átta ára gamlan son sem er greindur með ADHD og mótþróaþrjóskuröskun.

Segir hún heimilislífið erfitt og að hver einasti dagur einkennist af öskrum, blóti, ofbeldi og látum í færslu sem hún skrifar á bloggsíðu sinni Misteik. Unnur gaf Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að fjalla um skrif sín.

„Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki þá er það þegar allir segjast vera með ADHD eða jafnvel segja að það sé í tísku að vera með ADHD. Barnið mitt er yndislegur persónuleiki og lífið gæti leikið við hann ef hann hefði ekki þessar greindu raskanir. En lífið er því miður ekki svo auðvelt fyrir elsku stjörnuna mína. Hættiði að segjast vera með ADHD því þið gleymið lyklunum ykkar í skráargatinu eða gleymið hvar þið lögðuð frá ykkur símann. Það geta allir verið utan við sig en ADHD er svo miklu meira en að vera bara það að gleyma hvað vinnufélaginn þinn heitir,“ segir Unnur en bendir þó á það að hún dragi það alls ekki í efa að margt fólk sé með ADHD.

„Það væri eins og að segja í hvert skipti sem einhver fær illt í magann „Ohh ég er örugglega með krabbamein.“ Fjölskyldur sem að ganga í gegnum þetta eiga erfitt með allar athafnir. Aðeins það að láta barnið lesa, koma því í gegnum búðina, að tannbursta og allir þessir hversdagslegu hlutir eru alltaf 13x erfiðari.“

Skammast sín fyrir að hafa ekki stjórn á barninu

Segir Unnur álagið á fjölskylduna töluvert meira en að sem betur fer eigi sonur hennar marga vini í dag.

„En ef ástandið heldur áfram eins og það er í dag þá mun það ekki endast lengi. Við höfum gengið í gegnum greiningar, stuðningskennslu, atferlismeðferðir bæði í skóla og utan skóla, hann er einnig komin á lyf við báðum röskunum og við erum á botninum,“ segir Unnur.

„Svo má ekki gleyma skömminni sem þessu fylgir. Hvað haldiði að ég skammist mín oft fyrir það að hafa ekki stjórn á barninu mínu? Eða þegar ég er á almenningi og barnið tekur brjálæðiskast, hversu margir gefa manni Jesús minn „lookið“? Þetta er álag á alla heimilismenn, ekki bara barnið sem um ræðir en auðvitað er það barnið sem á að hlúa að fyrst og fremst, en það má ekki gleyma þeim sem koma að barninu. Ég er andlega viðkvæm og á til með að kikna undan álagi. Það má ekki gleyma því að við foreldrar þessara barna erum að gefa okkur öll fram til þess að gera líf þessara barna eins eðlilegt og hægt er. Það má heldur ekki gleyma því að ADHD er enn og aftur ekki bara það að gleyma að borða morgunmat.“

Segir hún son sinn eiga sínar góðu hliðar sem fá fjölskylduna til þess að gleyma erfiðu stundunum af og til. Hann syngi eins og engill, sé með mikinn metnað í íþróttum og sé frábær stóri bróðir.

\"\"

Bræðurnir saman 

„Hann er elskaður virkilega mikið af öllum þeim sem þekkja einmitt þessa hlið á honum! Ekki gleyma elsku lesendur að það eru yndisleg börn á bakvið þessi skapstóru grey sem að koma upp í erfiðum aðstæðum, það er einnig á bak við þreytt foreldri oftast einstaklingur sem þráir ekkert heitar en „eðlilegt“ líf þar sem að það þarf ekki allt að vera barátta! Hættum að djóka með ADHD því það er alls ekkert grín!“

 Unnur sem skrifar reglulega færslur á síðuna heldur einnig úti opnum Snapchataðgangi undir notandanafninu: unslan sem og að vera reglulega á hópsnapchatinu misteik. Þar ræðir hún meðal annars erfiðleikana sem hún tekst á við með syni sínum vegna sinna greininga ásamt fleiru.