Skólakerfið og staða flóttabarna

Staða flóttabarna í íslensku skólakerfi verður til umfjöllunar í þættinum Skólanum okkar, sem er á dagskrá Hringbrautar kl.20.30 í kvöld.

Skólinn er afar mikilvægur þessum börnum, sérstaklega þegar kemur að því að læra íslensku en skipta þau félagslegu tengsl sem þessir nemendur mynda í skólanum afar miklu máli.

Viðmælendur í þættinum eru þær Fríða Bjarney Jónsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar í leikskólum Reykjavíkur, og Kristrún Sigurjónsdóttir, deildarstjóri móttökudeildar Lækjarskóla. Auk þess er spjallað við nemendur af erlendum uppruna og starfsfólk í Lækjarskóla, leikskólanum Ösp og Vesturbæjarskóla.

Þá er í þættinum athyglisvert viðtal við Bakir Anwar Nassar, kom hingað til lands 10 ára gamall og settist að á Akranesi ásamt móður sinni. Bakir hefur nú lokið stúdentsprófi.

Skólinn okkar er átta þátta sjónvarpsröð þar sem fjallað er um menntun og skólastarf frá ýmsum hliðum. Markmið þáttanna, sem eru samstarfsverkefni Kennarasambandsins og Hringbrautar, er að vekja athygli almennings á því gróskumikla og metnaðarfulla starfi sem fram fer í skólum landsins á degi hverjum.

Umsjónarmenn Skólans okkar eru Aðalbjörn Sigurðsson, útgáfu- og kynningarstjóri KÍ, og Margrét Marteinsdóttir fjölmiðlakona.