Skoða að skipa rannsóknarnefnd

Helga Vala Helga­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar og for­maður stjórn­skip­un­ar- og eftirlitsnefndar Alþingis, telur þörf á að skoða hvort skipa þurfi rannsóknar­nefnd um sendi­herra­kapalinn svokallaða. „Það hefur verið rætt við mig óform­lega bæði innan og utan þings frá lögspek­ingum,“ segir hún. Kjarninn greinir frá.

Helga Vala er gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.

Hér má sjá brot úr viðtalinu:

Sendiherrakapallinn snýr að hluta Klaustursupptakanna, þar sem má m.a. heyra Gunnar Braga Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi þingmann Miðflokksins, tala um hvernig hann telji sig eiga inni hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa skipað Geir H. Haarde sem sendiherra og vænti þess að verða skipaður sendiherra sjálfur þegar fram líði stundir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir einnig á upptökunum að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hafi sagt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að „leysa málið.“

Í gærmorgun fór fram fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna málsins. Hvorki Gunnar Bragi né Sigmundur Davíð mættu á fundinn en Bjarni og Guðlaugur Þór mættu á hann og sátu fyrir svörum.

Helga Vala segir að þingið hafi vald til þess að skipa rann­sókn­ar­nefndir og ef slík nefnd yrði skipuð vegna sendiherrakapalsins myndi koma í ljós hvort Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð, sem neit­uðu að mæta fyrir stjórn­skip­un­ar- og eftir­lits­nefnd, geti sagst ætla að sleppa því að mæta fyrir rann­sókn­ar­nefnd.

Nánar er rætt við Helgu Völu í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.