Skiptastjóri frá helvíti í boði arion banka

„Mælikvarði Arion banka á vanhæfi skiptastjóra er vægast sagt sérkennilegur. Bankinn telur annan skiptastjóra WOW vanhæfan vegna þess að sem lögmaður stendur hann í málaferlum gegn dótturfélagi bankans. Í þrotabúi Sigurplasts var Arion banki ekki jafn smámunasamur gagnvart vali á skiptastjóran[um]. Sá hafði unnið fyrir eigendur Arion í tugum mála og hafði mikla atvinnuhagsmuni vegna þess. Hann hafði mikla hagsmuni tengda bankanum. En fyrir vikið taldist hann fullkominn í þau skítverk sem fyrir lágu af hálfu bankans gegn fyrrum aðaleigendum Sigurplasts.“

Þetta skrifar Ólafur Hauksson almannatengill í aðsendri grein á Vísi.is. Þar segir hann það tímabært að vinda ofan af því hvernig Arion banki og skiptastjóri hans höguðu sér í máli Sigurplasts.

„Iðnfyrirtækið Sigurplast var skuldsett eftir bankahrunið, líkt og fjöldi annarra fyrirtækja. Sigurplast taldist engu að síður rekstrarhæft samkvæmt úttekt Ernst og Young. Hins vegar var stirðleiki í samskiptum aðaleigenda Sigurplasts og fulltrúa bankans um leiðir til að taka á málinu. Steininn tók úr þegar bankinn ákvað í ágúst 2010 að bíða ekki eftir dómi um ólögmæti gengisbundinna lána Sigurplasts. Þess í stað krafðist bankinn að fyrirtækið yrði úrskurðað gjaldþrota. Vitaskuld voru aðaleigendur Sigurplasts ekki hressir með þessi svik og gagnrýndu Arion banka harðlega, í einkasamtölum og opinberlega,“ skrifar Ólafur.

Ólafur rifjar upp að Grímur Sigurðsson, lögmaður hjá Landslögum, hafi verið skipaður skiptastjóri Sigurplasts. „Kaupþing, eigandi Arion banka, var stór viðskiptavinur hjá honum. Grímur var með tugi mála í gangi fyrir Kaupþing í héraðsdómi og Hæstarétti. Á sama tíma var Grímur skiptastjóri í hinu risastóra þrotabúi Milestone.“

„Arion banki greiddi 50 milljónir króna inn í þrotabú Sigurplasts, þó svo að bankinn væri með allsherjarveð í öllu sem fyrirtækið átti. Bankinn þurfti því ekki að setja eina krónu inn í búið. En tilgangur þessa höfðinglega framlags kom þó fljótlega í ljós. Skiptastjóranum var ætlað að nota peningana til að ganga í skrokk á fyrrum aðaleigendum Sigurplasts, þeim Jóni Snorra Snorrasyni og Sigurði L. Sævarssyni, fyrir ósvífnina í samskiptum við bankann,“ bætir Ólafur við.

Í grein sinni fer Ólafur ítarlega í saumana á því hvernig Grímur beitti sér sem skiptastjóri Sigurplasts og skrifar að lokum: „Þeir Jón Snorri og Sigurður hafa verið vinir mínir um langt skeið. Ég hef því fylgst náið með framvindu þessara mála og runnið til rifja að verða vitni að þeim skepnuskap sem þeir hafa verið beittir af hálfu Arion banka og skiptastjórans með blessun Héraðsdóms Reykjavíkur. Einstaka sinnum hef ég lagt þeim lið í baráttunni. Þeir félagar hafa ekki viljað vera í sviðsljósinu vegna þessara mála, enda búið að berja þá niður trekk í trekk. Mér er ljúft að taka upp hanskann fyrir þá, enda er ástæðan ærin. Ég tel að vægast sagt ómaklega hafa verið vegið að þeim persónulega í krafti fjármuna sem Arion lagði til en voru að sjálfsögðu teknir úr vösum viðskiptavina bankans. Ég á bágt með að skilja hvernig skiptastjóri sem er opinber sýslunarmaður, skipaður af héraðsdómi, getur komist upp með framferði á borð við það sem Grímur Sigurðsson hefur sýnt af sér.

Hann segir fantaskapinn fádæmalausan. „Fantaskapurinn í atlögunni að þeim Jóni Snorra og Sigurði er fádæmalaus og ömurlegt til þess að vita að meinfýsnir hrokagikkir í Arion banka hafi eins og hendi væri veifað getað dælt 50 milljónum króna í það verkefni. Glæpamenn verða eins og kórdrengir í samanburði. Þeir starfa jú utan ramma laganna. Skiptastjórinn og Arion banki störfuðu í skjóli laganna.“

Grein Ólafs í heild sinni má lesa á Vísi.is.