Skellur fyrir átökin framundan

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu var ósáttur við 3-0 tap í æfingaleiknum gegn Mexíkó í Santa Clara í Bandaríkjunum í nótt, en sá þó líka ljósa punkta og margt jákvætt í leik liðsins.

„Það er auðvitað svekkjandi að tapa 3-0, stærsti tapleikur okkar í mörg ár,” sagði Aron. Hann sagði markatöluna ekki alveg gefa rétta mynd af leiknum og liðið hafi spilað vel og það sé það jákvæða sem þeir taki frá leiknum.

Aron hefði viljað sjá betri nýtingu færa, sem Ísland átti nóg af. „Og við þurfum að halda áfram að vera þetta skipulagða lið sem við vorum meginpartinn af leiknum, áfram bara með smjörið.”

Samt væri raunar fínt fyrir liðað að fá smá skell núna, það hífi liðið upp fyrir átökin framundan.

Sjá má mörkin í leiknum í myndbandi á RÚV.