Skattrannsóknarstjóra hótað og reynt að múta

„Ég hef fengið hót­an­ir og það hef­ur líka verið reynt að múta mér,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri ríkisins, í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag. Bryndís tók við embættinu árið 2007 og segir þetta hluta af starfinu. Öðrum starfsmönnum embættisins hefur líka verið hótað. 

„Það var eitt mál sem tók nokkuð á sem var hérna til rannsóknar í kjölfar hrunsins sem beindist að starfsmönnum. Þar var jafnvel ættingjum starfsmanns hótað atvinnumissi. Það fannst mér svolítið langt gengið. En það er oft erfitt með sönnun og annað í slíkum málum. Það er nú sjaldnast þannig að slíkar hótanir séu gerðar í vitna viðurvist eða settar á blað,“ segir Bryndís við ViðskiptaMoggann.

Bryndís segir að stofnuninni sem slíkri hafi líka verið hótað og þeim hótað pólitískum afskiptum í einstökum málum. „Ég er ekki að segja að það hafi átt sér stað. En því hefur verið hótað,“ segir Bryndís einnig.

Hún nefnir dæmi um það hvernig hafi verið reynt að múta henni, þar sem henni hafi verið boðið að drekka frítt á bar í eitt ár gegn því að mál yrði fellt niður. „Einhverjir hefðu kannski freistast til þess. Þetta er náttúrlega bara hluti af þessu starfi. Það er auðvitað mitt starf og okkar hérna að láta þetta ekkert á okkur fá. Þetta hefur engin áhrif á það hvernig við tökum á málum og hvort við tökum á málum eða ekki. Ég fullyrði það og stend og fell með því. Það eru engin svona afskipti sem hafa áhrif á það hvernig við tökum á málum,“ segir Bryndís.