Sjúkraflutningamaður sem var meðal fyrstu aðila á vettvang náði að slökkva mesta eldinn í nótt

Gunnlaugur Jónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir það hafa skipt sköpum og auðveldað slökkvistarf hversu snör handtök sjúkraflutningamanns sem var meðal fyrstu viðbragðsaðila á vettvang voru við eldsvoðan sem varð í Mávahlíð í nótt.

„Við byrjuðum á því að bjarga fólki út og svo var ráðist á eld­inn eft­ir það og það gekk mjög hratt fyr­ir sig,“ seg­ir Gunn­laug­ur í samtali við mbl.is.

Sjúkraflutningamaðurinn hafði þá þegar tæmt úr einu slökkvitæki og náð með því að slökkva mesta eldinn sem logaði í anddyri íbúðarinnar. Reykkafarar voru sendir inn í íbúðina að bjarga fólkinu og komu þeir tveimur aðilum út um glugga en sá þriðji komst út af sjálfsdáðum.

Ekki er vitað um ástand þeirra sem fluttir voru á bráðadeild en íbúðin sem eldurinn kom upp í er mikið skemmd vegna elds, reyks og vatns. Rannsókn á eldsupptökum eru í höndum tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.