Sjö nýir á ráðherrastóli

Í nýrri ríkisstjórn liggur mesta reynslan hjá fjórum ráðherrum sem hafa áður haft embætti meðfram þingsetu. Þetta eru þau Bjarni Ben, Þorgerður Katrín, Kristján Þór og Guðlaugur Þór. Nýjir ráðherrar eru 7 talsins og þrír eru algerir nýliðar, það er, hafa ekki heldur setið á Alþingi.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Benedikt Jóhannesson og Þorsteinn Víglundsson eru nýjir ráðherrar sem hafa ekki setið á þingi áður, og tveir í flokki sem hefur aldrei verið til á Alþingi áður. Það er vafamál hvort það hlutskipti sé eftirsóknarvert, það er að læra „inna á þingið“ eins og sagt er og taka við ráðuneyti um leið. Hanna Birna Kristjánsdóttir, sagði eftir afsögnina úr innanríkisráðuneytinu að það hefði verið óráð að vera nýliði í báðum hlutverkum, sem þingmaður og ráðherra.

Þórdís fær verkefni sem snúa að stærstu og kannski stjórnlausustu atvinnugrein landsins, ferðaþjónustunni, Þorsteinn fær húsnæðismálin sem lengi hafa hrópað á uppbyggingu og lausnir fyrir ungt fólk. Benedikt er þó sennilega í auðveldari málum þar sem fjármálaráðuneytið er nokkuð skorið og skipt í eðli sínu.