Sjö mánaða Sóllilja kemst ekki í aðgerð: „Þetta er alveg ömurlegt“

Sjö mánaða Sóllilja kemst ekki í aðgerð: „Þetta er alveg ömurlegt“

Hin sjö mánaða gamla Sóllilja Ásgeirsdóttir þarf að bíða eftir að komast í aðgerð á Landspítalanum vegna plássleysis á gjörgæsludeild. Foreldrar hennar eru ósáttir við að þurfa að bíða og segja óþarfa álag sett á fjölskylduna.

Fjölskyldan þarf að bíða eftir að Sóllilja komist í aðgerðina þar til í lok mánaðarins. Foreldrar hennar hyggjast skrifa Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra bréf vegna þessa.

Aðgerðinni hefur nú verið frestað tvisvar. Ásgeir Yngvi Ásgeirsson, faðir stúlkunnar, segir í samtali við Fréttablaðið að það sé ömurlegt að þurfa að undirbúa dóttur sína undir aðgerð í þriðja skiptið. „Þegar við förum með hana í aðgerðina næst, þá verður það sjötta Reykjavíkurferðin til að fara í aðgerðina. Fyrir utan allar rannsóknirnar á undan til að staðfesta að hún þurfi að fara í aðgerðina. Þetta er mikið álag og alveg ömurlegt. Að trilla barninu langa ganginn, það er ekki skemmtilegt. Hvað þá að gera það í þriðja skiptið.“

Annað nýra Sóllilju virkar ekki sem skyldi. „Það kemur upp strax þegar hún er í móðurkviði að það er þrenging í þvagleiðara við annað nýrað sem gerir það að verkum að nýrað nær ekki að starfa almennilega. Það er hætta á því að það muni skemmast fljótlega ef þessi þrenging er ekki skorin í burtu,“ segir Ásgeir.

Sóllilja þótti of lítil við fæðingu til þess hægt væri að framkvæma aðgerðina strax og var hún bókuð í aðgerð í síðasta mánuði. „Hún varð veik nóttina fyrir aðgerðina og það var ekki við neinn að sakast að aðgerðinni var frestað,“ segir Ásgeir. Gera átti aðra tilraun á mánudaginn en þegar  fjölskyldan mætti á spítalann var þeim vísað frá þar sem ekki var pláss á gjörgæslu.

Fjölskyldan býr í Borgarfirði og þarf því að keyra til og frá Reykjavík „Burtséð frá kostnaðinum við að keyra frá Borgarfirði og gista í bænum með tilheyrandi vinnutapi, þá er það andlegi þátturinn. Það er mjög erfitt fyrir foreldra með lítið barn að standa í þessu. Auðvitað var ekki hægt annað en að fresta þessu í fyrsta skiptið, en að þurfa að fresta þessu aftur vegna plássleysis á spítalanum, þetta er orðið mjög erfitt.“

Nýjast