Sjálfstæðismenn ekkert lært af hruninu

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins segir í vikulegri helgargrein sinni í blaðinu í dag að Sjálfstæðisflokkurinn hafi því miður ekki gert hrunið upp við sig.

En þetta eigi líklega við um fleiri flokka. Tilefni skrifanna eru orð Theodóru Þorsteinsdóttur, bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar í Kópavogi og fyrrverandi þingmaður sem hafði þetta að segja við RÚV á dögunum: \"Við erum ekki að stunda þessa flokkapólitík eins og fjórflokkurinn.  Ég komst að því mjög fljótt að við vorum  engan veginn á sama stað í vinnubrögðum, í þankagangi. Ég sá það strax að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gert hrunið upp við sig.\"

Styrmir segir þetta \"því miður rétt hjá Theodóru\" og bendir á mörg teikn á lofti þess efnis að sömu fjármálaglæfrarnir og voru viðhafðir fyrir hrun séu að verða áberandi í samfélaginu á nýjaleik; afhenda eigi fjármálakerfið mönnum sem hagi sér vísast eins og \"útrásarvíkingarnir\" gerðu á sínum tíma - og pólitíkinni finnist það bara eðlilegt, alltént heyri hann ekki annað innanbúðar í flokknum sínum.