Sjáðu tölvupóstinn sem magnús geir sendi starfsmönnum rúv: bjartsýnn á að fá starfið

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur ákveðið að sækja um stöðu þjóðleikhússtjóra. Magnús Geir tilkynnti starfsmönnum RÚV þetta í morgun. Hann segist ánægður í núverandi starfi sínu en að leikhúsið eigi alltaf stóran sess í hjarta sínu.

Magnús Geir hefur starfað sem útvarpsstjóri síðastliðin fimm ár og var skipaður til fimm ára til viðbótar í upphafi árs, eða til ársins 2024. Áður en hann var ráðinn útvarpsstjóri var hann leikhússtjóri Borgarleikhússins frá 2008 til 2014. Frá 2004 til 2008 var hann leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.

„Eins og þið vitið sjálfsagt, þá hafði ég verið í leikhúsinu allt mitt líf, þegar mér bauðst að taka við stjórn RÚV fyrir rúmum fimm árum. Ég er ótrúlega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í sameiningu á síðustu misserum og ég er mjög ánægður í starfi mínu hér. Á hverjum degi finn ég hvað RÚV skiptir landsmenn miklu máli og hvað RÚV er mikilvægt og jákvætt hreyfiafl,“ segir Magnús Geir í tilkynningunni.

Magnús Geir er leikhúsfræðingur að mennt og segir töfra leikhússins toga í sig að nýju. „Þrátt fyrir að vera ánægður í starfi og að allt gangi hér vel, þá á leikhúsið samt alltaf rosalega stóran sess í hjarta mínu. Mér finnst fátt magnaðra en að sitja í leikhúsi þar sem hópur fólks deilir upplifun og lætur hreyfa við sér með sögum sem skipta máli. Nú er mér ákveðinn vandi á höndum því staða leikhússtjóra er laus til umsóknar frá næstu áramótum.“

„Ég vil tilkynna ykkur, fyrstum af öllum, að ég hef eftir nokkra umhugsun ákveðið að sækjast eftir starfinu. Ég trúi því að ég hafi heilmikið fram að færa í það starf og mig langar mikið að fá aftur að taka þátt í leikhústöfrunum. Þá hef ég að undanförnu fengið hvatningar frá leikhúsfólki sem ég tek mark á og þykir vænt um,“ segir hann einnig.

Sjáðu tölvupóstinn frá Magnúsi Geir hér:

\"\"