Sjáðu bankayfirlit báru: klausturskvartettinn vill fá yfirlit yfir færslur

Fjórir þingmenn Miðflokksins hafa óskað eftir að lögmaður þeirra afli frekari gagna í hinu svokallaða Klaustursmáli. Lögmaður þeirra hefur nú lagt fram kröfu til Persónuverndar um aukna gagnaöflun í málinu. Meðal þeirra gagna sem er óskað eftir eru upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum varðandi millifærslur á fjármunum inn á persónulegan reikning Báru Halldórsdóttur, líkt og greint var frá fyrr í dag.

Eyjan.DV.is hefur birt bankayfirlit Báru með leyfi hennar. Bankayfirlitið má sjá hér og hér.

Erfitt er að sjá nokkuð tortryggilegt í því, enda bárust aðeins tvær greiðslur á reikning Báru frá 15. nóvember til 15. desember 2018, tímabilinu sem Reimar Pétursson, lögmaður þingmanna flokksins, óskar eftir að fá nánari upplýsingar um.

Önnur greiðslan var millifærsla frá maka Báru upp á 10.000 krónur og hin var frá Tryggingastofnun ríkisins, sem með jólabónus nam 307.109 krónum, en Bára er sem kunnugt er öryrki.

Í umfjöllun Eyjunnar kemur fram að fjölmiðillinn hafi virt óskir Báru um að birta ekki útgjöld hennar og persónuupplýsingar. Eyjan staðfestir að engar aðrar greiðslur bárust henni á umræddu tímabili, enda allar aðrar færslur á tímabilinu útgjöld eða skuldfærslur.