Sigurjón: „þetta eru galin sjónarmið hjá jóhannesi“

Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, furðar sig í pistli sem birtist á miðlinum í dag á viðbrögðum Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, við svartri skýrslu Alþýðusambands Íslands um brotastarfsemi á vinnumarkaði. Skýrslan var birt í gær og í henni kom meðal annars fram að jaðarsetning og brotastarfsemi hafi aukist á íslenskum vinnumarkaði og að launþegar, mest erlent fólk og ungt fólk, hafi verið sviknir um 450 milljónir króna á síðasta ári.

Í skýrslunni er greint frá því að fjögur aðildarfélög ASÍ hafi gert 768 launakröfur árið 2018 upp á samtals 450 milljónir króna og að meira en helmingur allra krafna stéttarfélaga hafi verið gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Um 19 prósent launafólks á íslenskum vinnumarkaði er af erlendum uppruna.

Þá kemur fram að um helmingur allra krafna hafi komið úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu.

Sigurjón vísar í pistli sínum í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag, þar sem haft er eftir Jóhannesi Þór: „Í ungri at­vinnu­grein á borð við ferðaþjón­ust­una má gera ráð fyr­ir að tíma geti tekið fyr­ir þá sem ný­byrjaðir eru í starf­semi að átta sig á regl­um, meðferð kjara­samn­inga og öðru slíku.“

„Þegar um okk­ar fé­lags­menn er að ræða, þá er gjarn­an um heiðarleg mis­tök að ræða eða menn átta sig ekki á því hvernig regl­urn­ar standa. Við höf­um lagt áherslu á að koma rétt­um skila­boðum til viðkom­andi aðila um að afla sér þekk­ing­ar um hvernig eigi að gera hlut­ina og laga það sem laga þarf,“ segir Jóhannes Þór einnig.

Stórkostlegur launaþjófnaður ferðaþjónustufyrirtækja

„Hann kýs sérstaka leið til að svara fyrir stórkostlegan launaþjófnað ferðaþjónustufyrirtækja. Í stað þess að tala um það sem vel er gert kýs Jóhannes Þór að nálgast staðreyndirnar með allt öðrum hætti. Með réttlætingu,“ segir Sigurjón.

Sigurjón tekur orð Jóhannesar um meðferð kjarasamninga sérstaklega út fyrir sviga: „Þetta eru galin sjónarmið hjá Jóhannesi. Kjarasamningar eru ekki það flóknir að meðalmaðurinn geti ekki lesið þá, og skilið. Aumt yfirklór.“

Hann segir launaþjófnað vera hreint ömurlegan. „Þau sem verst standa eru helst fórnarlömb óheiðarlegs fólks. Jóhannes Þór verst enn.“

Að lokum rifjar Sigurjón upp gamalt viðurnefni Jóhannesar frá fyrra starfi. „Áður var Jóhannes Þór aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs og var þá oftast kallaður Jóhannes útskýrari. Hann hefur engu gleymt. Jóhannes Þór er í skítadjobbi.“