Sigurjón stórslasaðist og missti lífslöngunina – veist þú af þessum slysagildrum

„Ég var sextugur maður og var fréttastjóri á Stöð 2 og á Fréttablaðinu og var bara í ágætismálum. En fljótlega eftir þetta þá kom í ljós að það yrði ekkert aftur snúið. Þetta var búið hjá mér. Einmitt svona áreiti, álag og verkirnir almennt, þetta var bara vont, virkilega vont. Og það endaði með því að ég dró mig bara í hlé.“

Þetta segir Sigurjón M. Egilsson í viðtali á RÚV. Hann slasaðist illa í mótórhjólaslysi og skýring hans er hversu hált malbikið er á þessum umrædda stað. Þá er hann öryrki eftir slysið og er með stöðuga verki fimm árum  síðar.  Hann furðar sig á því að ekki standi til að malbika yfir hála vegarkaflann sem hann slasaðist á fyrr en hugsanlega á næsta ári.

Í september fyrir fimm árum ók Sigurjón M. Egilsson á mótórhjóli eftir Vesturlandsvegi í átt að hringtorginu við Bauhaus. Sigurjón lýsir þessu á eftirfarandi hátt:

„Ég bjó þá uppi í Mosfellsbæ, var að koma heim á hjólinu og vissi að ég þurfti alltaf að fara varlega í þessu hringtorgi, það er hált. Nema þennan dag gerist það að ég féll til jarðar. Ég rann ekki neitt,“ Sigurjón heldur áfram:

 „Það brotnuðu fimm rifbein, lunga lagðist saman og herðablaðið brotnaði mjög illa. Svo urðu mjög miklar taugaskemmdir. Beinin gróa og allt í lagi með það, þetta var náttúrulega vont fyrst og allt það en taugaskemmdirnar lagast aldrei. Það er það sem gerir það að ég er með 10-15% mátt í hægri handlegg og í fingrum enn minna. Handleggurinn verður t.d. svo þungur, það er svo þungt að bera hann. Það er þess vegna sem ég set upp fatlann af því að hann sígur í, tekur í. Ég fæ aldrei eina mínútu í hvíld frá verkjum, aldrei.“ Þá segir Sigurjón:

„Ég var í verulegri hættu, ég hafði enga lífslöngun, ég vildi loka mig af. Það sem mér finnst eiginlega sárast af öllu eftir að hafa horft á fréttirnar á RÚV þegar talsmaður eða formælandi Vegagerðarinnar segir: við vitum af þessu en við höfum enga peninga til að laga þetta.

Vegagerðin segir í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttastofu RÚV að hált malbik sé á alls 16 km á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi. Til viðbótar sé hált malbik á 5 km kafla á Vesturlandi. „Viðvörunarskilti hafa verið sett þar sem vegfarendur geta mögulega orðið varir við hált yfirborð. Malbikið er frá árunum 2005-2015 og verður því endurnýjað á næstu árum.“