Sigrún waage ræðir erfiða reynslu sína

Leikkonan Sigrún Waage ræðir um Alzheimer-sjúkdóminn af einlægni og æðruleysi í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, en hún missti mömmu sína úr sjúkdómnum árið 2011 eftir að hún hafði glímt við hann um tólf ára skeið.

Það er átakanlegt að heyra lýsingar Sigrúnar af því skeiði þegar mamma hennar þekkti dóttur sína ekki lengur - og þegar hún ákvað að prufa að heilsa henni ekki á gangi, einn daginn, til að sjá hvort hún kveikti á perunni, sá hún móður sína ganga svipbrigðalausa framhjá sér. Það tók á, eins og svo mörg önnur tilvik á vegferð móðurinnar inn í hyldýpi Alzheimer.

Sigrún frumsýnir í næsta mánuði danska leikritið Ég heiti Guðrún í samstarfi við Þjópleikhúsið sem fjallar um blaðakonu sem greinist snemma á sextugsaldri með Alzheimer - og af því að hún býr ein og er barnlaus leggst sjúkdómurinn, ef svo má segja, á allar vinkonur hennar. Þegar er uppselt á fyrstu tíu sýningarnar!

Með Sigrúnu í viðtalinu er Jón Snædal, öldrunarlæknir sem deilir með áhorfendum tölfræðinni að baki Alzheimer og duttlungum sjúkdómsins sem tekur á sig margar myndir - og sumar raunar svo skemmtilegar og fólk grætur af hlátri - og nægir þar að nefna þegar mamma Sigrúnar strauk úr vistun og fór heim til heilabilaðrar systur sinnar sem hún tók svo með sér á Mímisbar, af öllum stöðum, hvar þær sátu í vellystingum án þess að þjónninn fattaði nokkuð, en við tók löng og mikil leit ættingja að systrunum tveimur á meðan.