Sigríður ingvarsdóttir settur forstjóri nýsköpunarmiðstöðvar íslands

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur sett Sigríði Ingvarsdóttur í embætti forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, frá og með 1. júní.

Þorsteinn I. Sigfússon, hefur fengið 12 mánaða leyfi frá starfi forstjóra frá sama tíma. Þorsteinn mun á þessu tímabili vinna að rannsóknar- og þróunarverkefni sem miðar að því að umbreyta CO2 útblæstri í eldsneyti.

Þorsteinn hefur gegnt stöðu forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá stofnun árið 2007 og Sigríður hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra stofnunarinnar á sama tíma. 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ríkisstofnun og heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Hlutverk miðstöðvarinnar er að hvetja til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi með virkri þátttöku í rannsóknarverkefnum og stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki. Undir stofnunina heyrir jafnframt Rannsóknastofa byggingariðnaðarins.

Hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands starfa tæplega 90 manns víða um land en höfuðstöðvar eru í Keldnaholti í Reykjavík.