Signa og fjölskylda lenti í óhugnanlegu atviki á akureyri í gær: „þarna hefðir þú geta drepið nokkra á einu bretti“

Signa Hrönn Stefánsdóttir var ásamt fjölskyldu sinni að ganga yfir götu á Hrafnagili á Akureyri um 17 leitið í gær þegar ökumaður kom á miklum hraða að hópnum án þess að hægja á sér.

„Við vorum 13 saman að labba úr nýja hverfinu yfir í jólahúsið, beint á móti gamla Vín. Við vorum í úlpum með endurskini og meira en helmingur okkar í skærlitum úlpum. Þarna er hámarkshraði fimmtíu kílómetrar. Þú sem ekur um á Skoda Octaviu station, leirljós brúnn og númerið byrjar á K þarna hefðir þú geta drepið nokkra á einu bretti,“ segir Signa í færslu á Facebook sem hún gat Hringbraut góðfúslegt leyfi til þess að fjalla um.

Í samtali við blaðamann segir Signa að á svæðið vanti betri lýsingu og gangbraut en þarna gangi mörg börn daglega yfir og oft á dag.

„Við sáum í hvað stefndi því þú varst klárlega ekki að horfa á veginn, ef þú varst að því er eitthvað mikið að. Helmingurinn hljóp yfir og hinir stoppuðu. Við vorum ekki að vaða út á götu rétt áður en bíllinn kom að, það var langt í hann var mjög líklega ekki á 50 km hraða og kom því hratt upp að okkur. Ég stóð í appelsínugulri úlpu nánast inn á götunni, baðandi út höndunum í von um að þú myndir sjá sóma þinn í að allavegana hægja á þér eða þá að biðja okkur og börnin afsökunar. Okkur var mjög brugðið,“ skrifar Signa.

\"\"

Hluti af úlpunum sem fjölskyldan var í. 

„Þú hægðir á þér þegar bíllinn þinn nánast straukst við mig, þar hefðir þú geta stoppað og beðist afsökunar en nei það gerðir þú ekki. Þú sem varst undir stýri skalt taka sjálfan þig í alvarlega naflaskoðun og jafnvel leggja skírteinið þitt inn áður en þú drepur einhvern.“