Ætlar að taka landsdómsmálið upp að nýju

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ætlar að taka Landsdómsmálið upp á Alþingi og gerir tillögu um að þingið biðjist opinberlega afsökunar á afgreiðslu málsins.

Sigmundur er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en flutningsmenn eru alls 15. Tillagan hlýtur að verða samþykkt í þinginu af þingmönnum Miðflokks, Flokks fólksins, Viðreisnar og einhverra þingmanna úr Samfylkingu. Alls gætu þetta verið um 20 þingmenn. Þá er útilokað annað en að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðji tillöguna en þeir eru 16 talsins.

 

Með þessu er Sigmundur Davíð að gera ráðherrum og ríkisstjórninni erfitt fyrir. Þetta útspil hans er þaulhugsað og klókindarlegt því Landsdómsmálið er afar ljótur blettur á þeim sem báru ábyrgð á þeirri lúalegu aðför sem gerð var að Geir Haarde, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Um þaulskipulega pólitíska aðför að Sjálfstæðisflokknum var að ræða. Steingrímur J. Sigfússon stýrði henni og skipulagði með nákvæmri hausatalningu til að tryggja að Geir sæti einn eftir. Ljótur leikur og sennilega svartasti dagur í sögu Alþingis Íslendinga.

 Sjálfstæðismenn voru æfir vegna þessa máls og mjög margir stuðningsmenn flokksins munu aldrei fyrirgefa þetta. En forysta flokksins hefur kysst á vöndinn með því að mynda ríkisstjórn með því fólki sem stóð fyrir aðförinni að fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Sigmundur Davíð veit þetta og honum er ljóst að upprifjun á þessu máli mun enn auka á úlfúð og sundrungu innan ríkisstjórnarinnar þegar nöfn hinna seku verða rifjuð upp.  Meðal þeirra sem kusu með því að draga Geir Haarde fyrir Landsdóm eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra og Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis. Allar þessar virðingarstöður hafa þau hlotið í boði Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir að hafa átt aðild að – og jafnvel stýrt - þessari lúalegu aðför að Geir Haarde.

 

Rétt er að rifja upp að tillaga var gerð til Alþingis um að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu dregnir fyrir Landsdóm, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni Matthíesen, Björgvin Sigurðsson og Geir. Kosið var um hvert þeirra sérstaklega og þá var viðhöfð nákvæm hausatalning á vegum Steingríms J. Sigfússonar sem tryggði þá niðurstöðu að Geir Haarde yrði einn dreginn fyrir dóminn. Það var niðurstaða sem vinstri stjórnin hafði samið um fyrirfram.

 Vert er að hafa í huga að Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður VG og ráðherra, hefur beðist opinberlega afsökunar á aðild sinni að málinu. Hann var nógu stór í sér til að stíga fram og viðurkenna þessi hörmulegu mistök. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingar og ráðherra, kaus á móti því að draga menn fyrir Landsdóm. Hann hefur ítrekað fjallað um það hve rangt það var að standa svona að þessu dapurlega máli.

 Landsdómsmálið var hreint níðingsverk gagnvart Geir Haarde, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Ef forysta flokksins hefði sómatilfinningu þá hefði hún aldrei unnið í ríkisstjórn með þeim sem þannig komu fram. En allar stefnur, öll loforð og sómatilfinning víkja auðveldlega fyrir ráðherrastólum. Flokksmenn og kjósendur ættu samt að leggja þetta á minnið.

 

Rtá.