Sigmar gat ekki sofið vegna eftirsjár: „finnst það ekki lengur“

Sigmar Vilhjálmsson, annar stofnenda Hamborgarafabrikkunnar, gagnrýndi Hatara harðlega á Twitter í nótt. Var hann afar ósáttur ósáttur við það uppátæki að hljómsveitarmeðlimir veifuðu palenstínskum fánum við lok keppninnar. Sagði Sigmar að þessi framkoma væri til skammar. Sigmar sagði:

„Þetta fánaatriði hjá #hatridmunsigra var glatað. Þetta er söngvakeppni og skilaboð sem þessi eru til skammar. Breytir engu hver þau eru. Þarna skammaðist ég mín fyrir annars mjög flott stönt. Ástandið á vesturbakkanum verður ekki leyst í sjónvarpssal Eurovision #12Stig“

DV gerði gagnrýni Sigmars skil. Var hann bæði harðlega gagnrýndur fyrir þessi ummæli á Twitter og svo á DV í dag.

Máni Pétursson útvarpsmaður og annar stjórnandi Harmageddon gagnrýndi Sigmar og sagði:„Undirstrikar kannski frekar hvað þú veist lítið um tónlist og tónlistarsögu. Þetta var frábært. Er þvílíkt stoltur af okkar fólki.“

Sigmar birti síðan annað tíst og sagði: „Getur einhver látið mig vita þegar góða fólkið er búið að fá alla sína útrás á síðasta tísti mínu. Magnað hvað frjálslyndafólnið reynist í raun fordómafyllst þegar öllu er á botninn hvolft.“

Sigmar dró síðan í land og gagnrýni sína til baka og sagðist sjá eftir skrifum sínum sem hafa farið víða eftir að DV birti frétt um málið.

„Ég gat ekki sofnað. Sé eftir því að hafa fundist Palestínu fánanum ofaukið. Sé eftir því og finnst það ekki lengur. Þetta var bara ótrúlega flott að sjá okkar fólk senda sterk skilaboð til heimsins. Takk fyrir góð rök og hvetjandi skilaboð sem opnuðu augu mín. #12Stig.“