Sigló hótel - enginn í gulum jakka!


Ég hafði heyrt vel látið af einu nýjasta hóteli landsins, Sigló Hótel. Fyrir nokkrum vikum ákváðum við frúin að það væri orðið tímabært að kynna okkur af eigin raun hvort sögur um glæsileika og góða þjónustu þar innanhúss ættu við rök að styðjast. Mann grunaði að upplifun gæti kostað skildinginn en reyndin var sú að verð fyrir eina nótt á þessum árstíma er á svipuðum nótum og ein andvökunótt á niðurníddu gistiheimili á höfuðborgarsvæðinu.

Barnlaus, frjáls, búin að gefa hvort öðru heit að vinna ekki neitt á meðan á ferðinni stóð, ókum við af stað á slóðir Ófærðar.

Þótt Seyðisfjörður sé sögusvið Ófærðar veit hvert mannsbarn nú orðið að megnið af vettvangstökum Ófærðar fór fram á Siglufirði. Sem gerir þetta þorp enn meira spennandi en ella. Maður var búinn að segja brandara um siðvilltan bjálæðing í gulum jakka a la Ófærð, hvort hann myndi taka á móti okkur á hótelinu. Til að gera langa sögu stutta sáum við engan starfsmann í gulum jakka. Við sáum ekkert annað en faglegt, lipurt og glatt þjónustufólk sem sannarlega virtist láta sig mestu varða að gera vel við gestina. Sem kannski er nýtt hér á landi!
Útkoman er að sjaldan hefur maður verið í hópi eins glaðra gesta. Ég sá fyrrum fjandmenn fallast hreinlega í faðma, fólk sem svaf undir sama þaki síðustu nótt, menn föðmuðust vegna þess eins hve öllum leið vel.  Gæðin sem boðið er upp á í þessu fyrrum einangraða þorpi eru með því besta í nálægri veröld. Það fullyrði ég.

Í fyrsta lagi er hótelið einkar aðlaðandi bygging og skemmtilega hönnuð. Herbergin dásamleg, þá ekki síst litirnir. Þeim fylgir líka ýmislegt sem stundum er rukkað aukalega fyrir. Hafi maður sofið værar eina nótt en aðrar var það í nótt, þökk snilldarrúmum og feitustu sængum og koddum í heimi, í fullkominni hljóðeinangrun.

Heiti potturinn fyrir utan hótelið er líka sérstakt meistaraverk sem verður að geta.

Maturinn fyrir utan eitt smáatriði var afar góður, humarsúpan sú besta sem við hjónin höfum nokkru sinni smakkað. Heilt yfir leið okkur aldrei eins og við værum á Íslandi, hvað þá í einhverju smáþorpi. Hinn geðþekki og bráðskemmtilegi Jan frá Tékklandi,  besti þjónn sem ég hef kynnst á þessu landi, átti nokkurn þátt í því, sem minnir okkur á hve margt gott við verðum á öllum tímum að sækja út fyrir landsteinana. Þjónustulund er eitt af því. Einhverra hluta vegna finnur maður hana nú á Siglufirði og þessi upplifun á Sigló Hótel minnti okkur hjónin á brúðkaupsferðina okkar til sælueyjunnar Máritíus. Sú ferð hefur til þessa verið viðmið allra viðmiða í okkar ferðamennsku. Nú bankar Siglufjörður upp á.


Til hamingju Siglfirðingar - til hamingju Ísland. Þeir sem reistu og reka hótelið og hafa endurskapað heila töfraveröld. Þið eigið svo mikið hrós skilið að það hálfa væri nóg.


(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)
Ps: Rétt er að taka fram að sá sem hér skrifar greiddi fullt gjald fyrir mat og gistingu og hefur enga dulda hagsmuni af þessum skrifum. Ég er bara svo hissa og svo þakklátur að það væri glæpur að miðla ekki áfram okkar jákvæðu reynslu. Ekki dugar að rífa kjaft alla daga!