„höfum þurft að borga alla meðferð sonar okkar úr eigin vasa“

„Við höfum þurft að borga alla meðferð sonar okkar úr eigin vasa og líka ferðakostnað, en við búum í Vestmannaeyjum,“ segir Ragnheiður Sveinþórsdóttir, í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Ragnheiður er móðir Ægis Guðna Sigurðssonar, sem er níu ára og fæddist með skarð í gómi.

Ragnheiður segir að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) neiti enn greiðsluþátttöku vegna aðgerða til að laga þennan alvarlega fæðingargalla. Hún segist vita um fjögur íslensk börn sem þurfa meðferð vegna sama fæðingargalla en njóta ekki greiðsluþátttöku SÍ.

Þá segir Ragnheiður: „Þetta er farið að horfa þannig við mér að það sé einfaldlega þrjóska og þvermóðska hjá Sjúkratryggingum sem ræður. Þeir hafi ákveðið að þessi börn eigi ekki að vera með vegna þess að það eru ekki öll börn með tannvandamál sem fá greiðsluþátttöku, án tillits til þess hvernig tannvandinn er tilkominn. Fyrir mér lítur þetta út eins og þessir sérfræðingar þeirra, sem eru komnir á eftirlaunaaldur eða við það, viti allt mest og best og ætli ekki að taka mark á sér yngri læknum sem eru sérhæfðir í þessum fæðingargalla. Þeir hafi einfaldlega ekki áhuga á að kynna sér nýjustu rannsóknir í faginu.“

Hún segir tannréttingameðferð barnanna taka um tíu ár alls og að henni ljúki þegar þau hafa tekið út vöxt við 16-18 ára aldur. Tannréttingakostnaður Ægis Guðna átti að vera um 550.000 krónur fyrir fyrsta hluta meðferðarinnar en er nú kominn í 1.026.000 krónur. Þá er áætlað að ferðakostnaður sé kominn í um 750.000 krónur aukalega, þrátt fyrir að alltaf sé ferðast á sem ódýrastan máta.

\"\"

Á myndunum má sjá Ægi Guðna, þanskrúfuna sem hann var með í rúm 2 ár og mót sem voru tekin við upphaf og lok meðferðar. Á mótunum sést að gómurinn hefur verið breikkaður um rúman cm en það er þó ekki nóg og gert er ráð fyrir að fjarlægja verði fullorðins jaxla svo að aðrar tennur komist fyrir.