Sendu líka konu benedikts viðbjóðsleg skilaboð: „þetta var forljótt“ - íslendingurinn sem tyrkir hötuðu – fer ekki á leikinn

Benedikt Grétarsson segir að það hafi verið óþægileg tilfinning að fá 80 milljóna þjóð á bakið á nokkrum mínútum. Margir stuðningsmenn Tyrkja töldu að Benedikt, sem starfar sem íþróttafréttamaður, hefði verið sá sem beindi uppþvottabursta að helstu stjörnu Tyrkja í Leifsstöð. En svo var ekki, um var að ræða belgískan ferðamann. Benedikt sagði í Síðdegisútvarpinu á Rás 2:

„Ég hélt að Twitter væri bilað hjá mér, það væri kominn vírus í hann, það hrúgaðist svo mikið inn en ég vissi ekkert um hvað þetta snerist. Einhverra hluta vegna rugluðu þeir saman manni sem var rúmlega tvítugur og 190 á hæð, við mig. Við lítum víst allir út eins sögðu þeir þegar þeir voru að biðjast afsökunar.“

Benedikt heldur áfram:

„Þetta var forljótt og ekki þægilegt að sitja undir þessu en ég ákvað fljótlega að hætta að lesa og slökkti á öllu. Það var einn og einn sem sendi á Facebook.“

Benedikt segir að það hafi verið sérstök tilfinning að vera skyndilega helsti óvinur tyrkneska landsliðsins.

„Þetta var mjög sérstakt. Korteri eftir að átti að skera mig niður í kebab kom, sorry my brother. Þá var ég allt í einu besti vinur þjóðarinnar. Þeir voru fljótir að mildast en voru helvíti grófir framan af,“ segir Benedikt og bætir við: „Maður vill ekki lesa um hótanir í garð fjölskyldunnar en ég gerði mér grein fyrir að þetta voru nethetjur tíu þúsund kílómetra í burtu. Ég var ekki að missa mig úr stressi.“

Engu að síður var tilfinningin óþægileg. Þá fóru hinir tyrknesku aðdáendur að reyna að hafa uppi á öðrum fjölskyldumeðlimum Benedikts. „Þeir voru búnir að þefa uppi hver var konan mín og voru byrjaðir að senda henni skilaboð.“

Benedikt fær ekki lengur skilaboð á Twitter en skilaboð berast enn á Facebook.

„Twitter samfélagið virðist átta sig á að ég sé saklaus en ekki á Facebook.“

Benedikt ætlar ekki á leikinn á Laugardalsvelli. Benedikt segir:

„Ég ætla í gólf. Ég ætla ekki að taka neina séns.“