Þórunn: „skelfileg þróun sem er að eiga sér stað“

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hún þær kjaraviðræður sem eru framundan hjá stéttarfélaginu.

Samningar BHM við ríkið, Reykja­vík­ur­borg og sveit­ar­fé­lög­in eru lausir frá og með 1. apríl og kröfugerð félaganna liggur fyrir. Aðildarfélög í BHM eru 21 og telja samtals tæplega 10 þúsund félagsmenn, allt háskólamenntað fólk á vinnumarkaði.

Eins og kunnugt er voru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði undirritaðir í liðinni viku, auk þess sem ríkisstjórnin kynnti svokallaða „lífskjarasamninga.“ Þórunn segir hluta þessara lífskjarasamninga vera fyrir alla. „Þarna er verið að fylgja eftir loforðum, eða málum sem hafa verið í deiglunni mjög lengi, t.d. vegna félagslegra undirboða, eða það sem við viljum kannski kalla glæpastarfsemi á vinnumarkaði, farið í aðgerðir vegna þeirra og lagabreytingar. Það er verið að vinna úr tillögum húsnæðishóps sem var skilað í janúar. Það er verið að formgera loforð um að lengja fæðingarorlof og annað slíkt. Þetta eru auðvitað mál sem ég tel mig nú vita að hefðu farið í farveg hvort eð er, en gott og vel. Þau eru sett í þetta samhengi og það er ágætt og við auðvitað njótum þeirra eins og aðrir, og svo eru þarna atriði sem eiga meira við almenna markaðinn.“

„Það er auðvitað þannig að við semjum bara á okkar forsendum og gerum sjálfstæða samninga við okkar viðsemjendur. Nú erum við að fara að semja við ríkisvaldið, eða fjármálaráðuneytið, sem er stærsti vinnuveitandi á Íslandi, Reykjavíkurborg og Samband sveitarfélaga – okkar fólk sem starfar hjá þessum vinnuveitendum. Þetta fólk á það auðvitað sameiginlegt að vinna hjá hinu opinbera, sinna stærstum hluta almannaþjónustu, sem felst í heilbrigðisþjónustu, menntaþjónustu, félagsþjónustu og öðru slíku. Allt mjög mikilvæg störf í samfélaginu. Við auðvitað höfum sagt það og segjum áfram að við viljum alvöru samtal um okkar kröfur og að fá bara það rými og sveigjanleika sem búið er að veita almenna markaðnum. Ég sé enga ástæðu til annars en að vera bara vongóð um að það gangi eftir,“ bætir hún við.

Aðspurð um þær úrbætur sem BHM mun krefjast til handa félagsmanna sinna segir Þórunn: „Þetta eru kannski nokkrir ólíkir hópar, svo ég reyni bara að skýra það út. Þetta eru háskólamenntaðir sérfræðingar, þau sem eru inni í heilbrigðiskerfinu eru mjög mörg í vaktavinnu, það er auðvitað sérstakur hópur. Það eru önnur sem eru t.d. í þessum dagvinnustörfum, eins og hjá sýslumanni og öðru slíku. Oft er það þannig að fólk er ekki með fasta yfirvinnu eða yfirvinnutíma greidda. Það er mikið álag, það er búið að vera rosalega mikið álag hjá hinu opinbera og það er eitt af því sem við höfum séð á síðustu tíu árum, að það sem eru svona síðbúnar afleiðingar hrunsins, samdráttar, niðurskurðar og álags, og fólk finnur fyrir því. Innan BHM er bara mikil þörf fyrir það að fólk fái viðurkennda menntun sína, sérfræðiþekkingu og að það sé metið til launa.“

Hún segir það uggvænlega þróun að æ fleiri sæki styrki í sjúkrasjóði og að þörf sé á að gera slíka styrki skattfrjálsa. „Þetta er risastórt mál, og það er í rauninni skelfileg þróun sem er að eiga sér stað. Við höfum eins og öll önnur stéttarfélög í landinu orðið vör við það að bara á síðustu tveimur árum hefur verið gríðarleg aukning í sjúkrasjóðina okkar, bæði á almenna og opinbera markaðnum. Það er þannig með sjóðina okkar á opinbera markaðnum að hann er ekki með sama framlag og á almenna og við viljum auðvitað hækka það framlag frá vinnuveitanda. Það er eldgömul krafa að taka skattinn af styrkjunum. Það er tekjuskattur af tilteknum styrkjum, það er bara þannig.“

„Þessu hefur verið lofað margoft af hálfu ríkisvaldsins og skiptir máli þegar kemur að því að þú þarft að nýta þér styrkinn. Þetta er bara réttlætismál og þarf að kippa í liðinn. Það sem er kannski undirliggjandi og veldur okkur mestum áhyggjum er að það eru svo margir háskólamenntaðir sérfræðingar sem að lenda í mikilli streitu, jafnvel kulnun, og það er jafnvel annar vinkill á því að þetta eru að meirihluta til konur og það er eitthvað í gangi í samfélaginu sem við erum að reyna að átta okkur á og þurfum svo sannarlega að bregðast við mjög fljótt og vel,“ segir Þórunn.

Nánar er rætt við Þórunni í 21 í kvöld. Þátturinn hefst sem endranær klukkan 21:00.