Sementsstrompurinn felldur í dag

Sementsstrompurinn felldur í dag

Mynd: Akraneskaupstaður
Mynd: Akraneskaupstaður

Í hádeginu í dag, nánar tiltekið klukkan 12:15, er áætlað að fella skorstein Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Upphaflega var áætlað að fella hann í hádeginu í gær en ákveðið var að fresta aðgerðinni um einn dag vegna slæms veðurs. Frá þessu er greint á vef Akraneskaupstaðar.

Í frétt Akraneskaupstaðar kemur fram að skorsteinninn verði felldur með sprengingu í tveimur hlutum. Efri hlutinn komi til með að falla í suðaustur, en neðri í suðvestur. Neðri hlutinn verður felldur nokkrum sekúndum eftir að efri hlutinn byrjar að falla. Öryggissvæði við fellingu er hringur í 160 metra fjarlægð umhverfis skorsteininn. Innan þessa svæðis megi engin manneskja vera óvarin.

Þá segir einnig að hættan við svona aðgerð sé að það verði frákast, þ.e. fljúgandi steinar, þegar skorsteinninn fellur. Öryggisráðstafanir miðast m.a. við að eitthvað gæti farið öðruvísi en áætlað er. Björgunarfélag Akraness og Lögreglan á Vesturlandi munu aðstoða við lokanir og eftirlit á svæðinu. Settir verða upp mælar til að mæla titring frá fallinu.

Hringbraut mun sýna beint frá aðgerðinni á Facebook síðu Hringbrautar og mun útsending hefjast skömmu fyrir klukkan 12:15.

UPPFÆRT: Aðgerðinni hefur verið frestað til klukkan 14:00 í dag. Útsending á Facebook síðu Hringbrautar mun því hefjast um tvö leytið.

Nýjast