Segja formann vg á miklum villigötum

Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, ef af henni verður, er tæpast á kjörtímabilið setjandi - og er enn síður upphafið að margra tímabila stjórnarsamstarfi VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Þetta er mat þeirra Gunnars Smára Egilssonar og Reynis Traustasonar, margreyndra blaða- og fréttamanna, sem vaða á súðum í Ritstjóraþætti kvöldsins og rýna jafnt í umtalað símtal Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde, sem Moggi birti einhverra hluta vegna um helgina - og svo að sjálfsögðu ríkisstjórnarmyndunina sem er til komin, að sögn félaganna, vegna pólitískrar lífsnauðsynar fyrir Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur að komast í stjórn.

Þeir telja að Katrín muni fara pólitískt flatt á þessum ráðahag, nýja stjórnin muni fylla Austurrvöll eins og tvær síðustu stjórnir hafa gert, hratt og örugglega muni kvarnast úr fylgi VG sem sýni núna sitt rétta andlit með því að halla sér að íhaldinu; Katrínu muni aldrei takast að sitja á friðarstóli í svona stjórn, ólíkt því sem verið hefði ef hún hefði látið reyna almennilega á nýja mið-vinstristjórn, en þar hefði hún getað markað sér pláss sem pólitískur framtíðarleiðtogi. Í staðinn verði hún veikur forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Ritstjórarnir byrja klukkan 21:00 í kvöld.