Segist hafa hitt ofurölvi ráðherra – landinu stjórnað af veiku fólki

„Við látum það viðgangast að landinu sé stjórnað af fólki sem er fárveikt af drykkjusýki. Ég held að það sé td. meginvandi Alþingis. Ég hitti t.d. ráðherra um daginn sem var svo ofurölvi að hann var í blakkáti og man ekkert eftir að hafa hitt mig. Ef allt væri eðlilegt þá væri hann kominn í einhverja langtímameðferð í Svíþjóð en þar sem gildismat okkar og sjálfsmynd er ekki eðlileg, heldur gegnsýrð af meðvirkni og fíkn, þá er hann bara ennþá á Alþingi og traust til hans fer vaxandi ef eitthvað er. Þú getur verið fárveikur dagdrykkjumaður en samt átt bara góðan starfsframa.“

Þetta segir Jón Gnarr í pistli á Facebook þar sem gagnrýnir stjórnvöld harðlega vegna málefna flóttafólks og lýsir yfir óánægju með viðhorf Íslendinga sem ættu að líta í eigin barm, að flóttamenn séu ekki vandi okkar, heldur áfengi. Jón Gnarr segir:

„Ég er orðinn svo hundleiður á þessum grútmygluðu og kúltúrlausu valdaklíkum sem öllu ráða hér og bera hvorki ástríðu fyrir né skynbragð á það sem þær þykjast vera að höndla með. Þessi myglusveppur er alls staðar, í stjórnmálum, menningunni, menntakerfinu, fjölmiðlum og alls staðar.

Okkur er öllum skipt upp í réttláta og rangláta, fína og ófína. Það er gott að vera í náðinni en vont að vera í ónáðinni. Ég þekki bæði vel. Ég gerði flipp fyrir mörgum árum og gerði með því ákveðnum valdaöflum grikk, ögraði valdamönnum og það verður mér sent fyrirgefið.“ Jón segir svo á öðrum stað:

„Gyðingar hafa aldrei verið velkomnir hér og við sendum þá með nákvæmlega sama hætti aftur í opinn dauðann. En nasistar og stríðsglæpamenn aftur á móti áttu hér öruggt skjól og vísan frama. Ef þú ert ákveðin tegund af íslendingi, fórst í rétta skólann, tilheyrir réttum stjórnmálaflokki og gerir réttum mönnum greiða þá þarft þú aldrei að ganga atvinnulaus, það verður alltaf séð um þig og þú færist bara úr einu góðu starfi yfir í annað jafnvel betra. Og það er eiginlega líka alveg sama hvað þú gerir af þér, það hefur mjög lítil áhrif á þá velmegun sem þú lifir við. Og þetta er ekki við Íslendingar, venjulegt fólk sem býr hérna á þessu landi. Við erum almennt gott fólk. En það er fólkið sem ræður hér og stjórnar sem gerir þetta svona.“

Að mati Jóns er þjóðarrembingur verstur, versta snobbið. Bætir Jón við að hann hafi gert sér vonir um að hans kynslóð myndi breyta hlutunum en slíkt hafi ekki gerst. Þá segir Jón:

„Ég er hluti af leynilegum hópi, sem er að reyna að koma ofsóttum manni, sem enginn veit hver er, í skjól. Ég hef spurst fyrir hér og það er útilokað. Hann er ekki frægur. Ég á heldur enga pólitíska greiða inni hjá neinum. En ef ég væri fulltrúi fyrir hóp af gömlum köllum, drykkjufélögum, sem hefðu verið saman í MR og ætti smá tengsl hingað og þangað þá held ég að við gætum jafnvel náð R. Kelly til landsins.“

Þá segir Jón Gnarr í lokin:

„Nonni sonur minn er nemandi í Hagaskóla og hefur verið einn af þeim sem hefur verið að mótmæla þessu. Og mig langaði bara til að sína þessu stuðning. Ég veit að þau eru múslimar og heita Safari en ég tel það ekki nokkra ógn. Við ættum þver á móti að reyna að fá sem flesta múslima til landsins því það er hluti af trú þeirra að drekka ekki áfengi. Hin raunverulega ógn á Íslandi er alkóhólismi. Alkóhólismi er heilasjúkdómur og íslenska þjóðin er heltekin af honum. Fárveik.“