Segir styttingu náms vera mistök

Guðríður Arnardótttir, formaður Félags framhaldsskólakennara:

Segir styttingu náms vera mistök

Guðríður Arnardóttir, formaður félags framhaldsskólakennara, segir að það sem kennarar hafi varað við að myndi gerast við styttingu framhaldsskólanáms sé að koma fram. Mikið álag sé á nemendum og það bitni á tómstundum þeirra, íþróttaiðkun og gæti leitt til brottfalls úr skóla.
 

Þing Kennarasambands Íslands samþykkti í liðinni viku ályktun um að hvetja mennta-og menningarmálaráðherra til að láta gera óháða faglega úttekt á styttingu náms í framhaldsskólum sem nýta megi til úrbóta. 

Guðríður segir við ruv.is í morgun að áður en stjórnvöld réðust í styttingu framhaldsskólanáms hafi kennarar varað við því að of bratt væri farið. Ákvörðunin hefði ekki verið undirbúin nógu vel. „Kennarasambandið hafði áhyggjur af því að þessi þjöppun gæti leitt til aukins álags fyrir nemendur og kennara og hafði áhyggjur af því að þetta myndi rýra innihald stúdentsprófsins og þar af leiðandi yrði undirbúningur nemenda lakari þegar þau hyggja svo á áframhaldi nám. Miðað við fyrstu merki virðist því miður sem okkar viðvaranir hafi átt rétt á sér.“ 

Guðríður segir að álagið komi niður á íþróttum og tómstundum nemenda. „Það virðist líka vera að koma í ljós að nemendur eru síður i öðru tómstundastarfi eins og tónlistarnámi, íþróttaiðkun. Þau eru þá að hætta þessum áhugamálum, leggja þessi áhugamál á hilluna, til þess að geta einbeitt sér að náminu.“

Fyrsti árgangurinn sem fer í gegnum þriggja ára framhaldsskólanám útskrifast í vor. „Nú höfum við forsendur til að skoða hvernig hefur til tekist því einn árgangur hefur farið í gegn, og sjá hvernig honum hefur reitt af. Það gæti verið mjög áhugavert að skoða ýmsa félagslega þætti og námslega. Hvernig standa þau og hvernig reiðir þeim af í háskóla í haust? Það væri áhugavert að fylgja þeim eftir,“ segir Guðríður við ríkisvefinn.

Nýjast