Segir jón baldvin hafa misnotað stöðu sína

Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi ráðherra og sendiherra, var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar fullyrðir hún að Jón Baldvin hafi sem ráðherra og síðar sendiherra getað sent bréf til dómsmálaráðuneytisins og óskað eftir því að hún yrði nauðungarvistuð. Morgunútvarpið hefur bréf þess efnis undir höndum.

Í viðtalinu segir Aldís að Jón Baldvin hafi nýtt bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Hann hafi þannig misnotað stöðu sína sem sendiherra til þess að reka persónuleg erindi. 

Jón Baldvin var utanríkisráðherra árin 1988 til 1995, varð svo sendiherra í Bandaríkjunum frá 1998 til 2002 og síðan í Finnlandi frá 2002 til 2005.

Aldís hefur síðan árið 1992 verið nauðungarvistuð sex sinnum, alltaf fyrir tilstilli föður síns að hennar sögn. Í viðtalinu greinir Aldís frá því að þegar fyrsta nauðungarvistin átti sér stað árið 1992 hafði hún skömmu áður gengið á föður sinn vegna kynferðisbrota hans, eftir að gömul skólasystir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Telur Aldís það enga tilviljun.

„Hann gat bara þaðan í frá, þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, hringt í lögreglu og þá var ég þar með handtekin. Umsvifalaust er ég í járnum og farið með mig upp á geðdeild, ég fæ ekki viðtal og það er skrautlegt að lesa þessar yfirlýsingar geðlækna. Þær eru um einhverjar ímyndanir mínar og ranghugmyndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ segir Aldís í viðtalinu.

Með það fyrir augum að bera hönd fyrir höfuð sér og kveða niður það sem hún kallar vísvitandi lygar hans um hennar meintu geðveiki, birti hún á dögunum vottorð frá Dr. Gunnari Hrafni Birgissyni og Dr. Jörundi Kristinssyni heimilislækni, þar sem hið fyrra greinir frá því að hún hafi ekki sýnt nein merki um geðhvarfasýki og hið síðara að engin einkenni geðsjúkdóms hafi komið fram við nokkurt tilfelli.

Fjöldi kvenna saka Jón Baldvin um kynferðislega áreitni

Á síðustu dögum hafa fjöldi kvenna stigið fram og greint frá kynferðislegri áreitni af hendi Jóns Baldvins. Fjórar konur stigu fram í umfjöllun Stundarinnar á föstudaginn, þar á meðal Guðrún Harðardóttir, sem hafði áður stigið fram árið 2012 og greint frá óviðeigandi bréfaskrifum Jóns Baldvins til sín. Eftir það hafa fleiri stigið fram, bæði í fjölmiðlum og í sérstökum MeToo Facebook hóp þar sem konur deila sögum af kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins.

Þetta mál var rætt í Ritstjórunum í 21 í fyrrakvöld. Þar voru Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Vikunnar gestir Sigmundar Ernis. Umræðuna í heild sinni má sjá hér: