Segir enn reynt að þvinga ÖBÍ

Björgvin Guðmundsson: Gróf mismunun öryrkja og aldraðra

Segir enn reynt að þvinga ÖBÍ

„Enda þótt ég sé ekki lögfræðingur tel ég líklegt, að þessar þvingunaraðgerðir hafi verið hreint lögbrot. Þessi gerræðisvinnubrögð, þessar þvingunaraðgerðir sem minna á vinnubrögð í einræðisríkjum, hafa verið furðulítið gagnrýnd. Það er eins og Íslendingar láti allt yfir sig ganga!“

Þetta segir Björgvin Guðmundsson fyrrverandi varaþingmaður í grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur noti sömu vinnubrögð og ríkisstjórnin á undan og reyni að þvinga Öryrkjabandalagið til að samþykkja nýtt starfsgetumat gegn því að króna móti krónu skerðingin verði afnumin hjá öryrkjum á sama hátt og hjá öldruðum.

Hann segir að nýr formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, hafi staðfest í Hringabrautarviðtali  að samskonar þvingun væri í gangi nú, þó hún væri orðuð á annan hátt: „Ríkisstjórnin reynir nú að fara nýjar leiðir í þessu máli; talar um samfélagslega þátttöku öryrkja í stað þess að tala eingöngu um starfsgetumat. Það er reynt að slá ryki í augun á öryrkjum og almenningi með slíkum orðaleppum,“ segir Björgvin í greininni.

„Þessi níðingsskapur hefur nú staðið í tæpa 15 mánuði gagnvart öryrkjum,“ segir hann. „Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir á að leggja fram frumvarp um þetta mál strax og það á ekki að tengja málið við starfsgetumat eða samfélagslega þátttöku öryrkja. Það er annað mál og það á að fjalla um það sérstaklega. Ekki á að tengja þessi mál saman.“

Nýjast